*

Ferðalög & útivist 12. apríl 2016

Feneyjar Skandinavíu

Stokkhólmur er stærsta borg Skandinavíu, byggð á 14 eyjum af hundruðum eyja.

Eydís Eyland

Borgin er stórfengleg á allan hátt og hefur hún að geyma byggingarlist frá 13. öld. Stokkhólmur er framarlega þegar kemur að tísku, og eru margir tískurisar þaðan. Þekkt tískumerki eins og Filippa K, Acne eru sænsk svo ekki sé minnst á að Svíþjóð er heimaland verslunarkeðjunnar H&M. Hægt er að gera allt milli himins og jarðar í Stokkhólmi, þar er hægt að velja um að fara á strönd, fara í verslunarleiðangur, borða góðan mat, fara í siglingar, dýragarð, á söfn og tívolí.

Stór hluti af vegakerfi borgarinnar er byggður í löngum göngum undir borginni en lest og samgöngur eru til fyrirmyndar þar í borg og því nýta flestir borgarbúar sér þann kost. Stokkhólmur er í raun eins og margir smábæir hver innan um annan og skiptist í nokkur svæði en miðsvæðis í borginni eru Norrmalm, Södermalm, Vestermalm, Östermalm og Gamla Stan eða gamli bærinn þar sem konungshöllin er.

Í Stokkhólmi er eitt fallegasta listasafn heims, Moderna Museet, og hafa allir þekktustu listamenn heims á borð við Andy Warhol, Louise Bourgeois og Ólaf Elíasson sýnt þar. Moderna museet er á eyju sem heitir Skeppsholmen og er auðvelt að taka bát frá Slussen þangað. Báturinn sem hægt er að taka frá Slussen stoppar á tveimur eyjum, Djurgården og Skeppsholmen. Á Djurgården er hægt að heimsækja dýragarðinn, tívolíiðGröne lund og eiga öll börn dásamlegar minningar þaðan sem hafa sótt Græna lund heim. Vert er þó að athuga að tívolíið er einungis opið yfir sumartímann.

Borgin er að öllu leyti vel fallin til útivistar, mikið er um græn svæði, skrúðgarða, leikvelli fyrir börn, göngustíga, hjólabrautir og æfingatæki utanhúss til líkamsræktar fyrir þá sem vilja hreyfa sig. Stokkhólmur er dásamleg borg sem vert er að heimsækja allan ársins hring. Eftir vinnu hvetur lesendur til að skoða þessa frábær borg, sem hefur upp á allt að bjóða.

Íslendingurinn í Stokkhólmi: Anna G. Magnúsdóttir, kvikmyndaframleiðandi í Stokkhólmi.

Besta föstudags-eftir vinnu: Glas af cava og ólífur á Folkoperubarnum á Söder.

Ferðamáti innan borgar: Tveir jafnfljótir, hjólið og T-bana/ græna línan.

Kaffihús: Kaffe á St. Paulsgatan, ein af sviðsmyndum Millennium-myndanna

Bestu söfnin: Moderna, Vasasafnið og Fotografiska.

Besta græna göngusvæði: Djurgården.

Besta borgargöngusvæði: Kungsholmen og Gamla Stan.

Besti veitingastaður: Bakfickan i Operuhúsinu í miðbænum.