*

Hitt og þetta 11. desember 2017

Fengu silfur fyrir herferð um Alvogen

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík vann til 3 stóra alþjóðlegra verðlauna þar á meðal silfur í Epica awards

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík vann á dögunum til þriðju alþjóðlegu verðlaunanna fyrir auglýsingaherferð sem þau hönnuðu fyrir Alvogen. Herferðin vann nú síðast til silfurverðlauna á EPICA sem er ein mikilvægasta og virtasta alþjóðlega samkeppnin á sviði auglýsingagerðar.

Auglýsingastofur víðsvegar að úr heiminum og þekktar stofur á borð við BBDO, DDB, Leo Burnett, McCann, Ogilvy, Saatchi & Saatchi og Wieden+Kennedy tóku þátt í keppninni en dómnefndina skipa blaðamenn fagblaða um auglýsinga- og markaðsmál frá öllum heimshornum. 

Nýlega vann Kontor Reykjavík bronz í Art Directors Club of Europe keppninni og í september síðastliðnum unnu þau til gullverðlauna á Brand Impact Awards. Þar var Alvogen herferðin einnig tilnefnd til aðalverðlauna hátíðarinnar þar sem það besta úr öllum herferðum og flokkum kepptu um titilinn „Best of show“. 

Brand Impact Awards er alþjóðleg keppni sem haldin var í fjórða skipti í ár og eru það tímaritið Computer Arts og vefsíðan Creative Bloq sem standa að keppninni.

Strangari reglur í lyfjageiranum

Alex Jónsson, annar eigenda Kontor Reykjavík, er að vonum ánægður með árangurinn. „Við hjá Kontor erum í skýjunum!,“ segir Alex. „Alvogen auglýsingarnar okkar halda áfram að vekja athygli — og nú úti í hinum stóra heimi með öllum þessum alþjóðlegu verðlaunum. Til hamingju Alvogen Ísland“.  

Auglýsingarnar hafa vakið athygli fyrir snjalla og einfalda útfærslu segir í fréttatilkynningu.  „Í auglýsingalínunni fyrir Alvogen er myndmálið mjög sterkt og fær að njóta sín. Það getur verið mjög snúið að gera auglýsingar fyrir lyfjageirann þar sem að strangar reglur gilda um hvað má og hvað má ekki segja,“ segir Sigrún Gylfadóttir Creative Director hjá Kontor Reykjavík. 

„Það er mikill heiður fyrir okkur, litla íslenska stofu, að fá þessi verðlaun“. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk auglýsingastofa fær tilnefningu og vinnur til verðlauna á Brand Impact Awards og eina íslenska stofan sem hefur unnið hefur silfurverðlaun á EPICA.

Auglýsingastofan Kontor Reykjavík var stofnuð í lok árs árið 2014 af hjónunum Sigrúnu Gylfadóttir og Alex Jónssyni. Þessi nýja auglýsingastofa hefur einnig rakað inn verðlaunum hér á landi þrátt fyrir ungann aldur, en þau hafa fengið 7 tilnefningar og unnið 3 Lúðra á Íslensku auglýsingaverðlaunum auk þess að hljóta 10 tilnefningar og vinna til tveggja FÍT verðlauna.