*

Ferðalög & útivist 1. október 2016

Ferðalagið skiptir miklu máli

Fríða Halldórsdóttir og Þórður Marelsson eru stofnendur Fjallavina og hafa verið með starfræktan gönguklúbb frá 2012.

Eydís Eyland

Fríða Halldórsdóttir, íþróttakennari og heilsufræðingur, og Þórður Marelsson, ráðgjafi hjá TM, nuddari og jógakennari, eru stofnendur Fjallavina og hafa þau verið með starfræktan gönguklúbb frá árinu 2012. Fjallgöngur eru þeirra helstu verkefni og þau taka einnig að sér að skipuleggja gönguferðir fyrir einstaklinga og hópa ef þess er óskað. Eftir vinnu hitti Fríðu og Þórð á notalegu heimili þeirra á Kjalarnesi í brakandi blíðu til að forvitnast meira um starf Fjallavina.

Hvað eru Fjallavinir og hvernig verða þeir til?

„Við erum lítið félag og erum ekkert að sækjast því að verða hundrað manna félag. Við viljum hafa okkar starfsemi eins persónulega og við getum,“ segir Fríða.

„Fjallavinir hófu starfsemi 2012, en þá vorum við búin að vera nokkur ár fararstjórar með Ferðafélagi Íslands. Svo ákváðum við að gera okkar eigin hóp. Fyrstu tvö árin gengum við mjög mikið enda var áhugi fólks á fjallgöngum að aukast gríðarlega. Við vorum með þrjú verkefni í gangi og farin að ganga allt að fjórum sinnum í viku, virka daga og helgar, þannig að það var mjög krefjandi. Núna erum við með færri verkefni og smærri hópa en ánægjan er alltaf sú sama,“ segir Þórður.

„Við sjáum mikið til sama fólkið, en auðvitað líka ný andlit sem er ánægjulegt. Margir hafa fylgt okkur allan tímann,“ segir Fríða.

Hvernig er dagskráin hjá Fjallavinum og er hún breytileg?

„Við göngum hálfsmánaðarlega og er gengið fram á sumarið. Laugardagar eru göngudagar og við byrjum í janúar og endum í október. Fólk kaupir sig inn í þetta verkefni sem heitir Fjöllin okkar en í verkefninu eru fimmtán gönguferðir. Þær eru mislangar og miserfiðar en við byrjum rólega og í styttri ferðum. Það sem er innifalið í verðinu er leiðsögn, leiðalýsing og tilmæli um útbúnað, nesti og hvert erfiðleikastigið er. Svo erum við með opið verkefni sem við köllum Potturinn, en þá getur fólk verið skráð á póstlista hjá okkur og fær þá póst um fyrirhugaða göngu sem stefnt er að um komandi helgi og þá getur fólk skráð sig í þá ferð og greiðir þá fyrir þessa stöku göngu. Verð fyrir staka göngu er á bilinu 3.000- 6.000 kr., eftir því hvert gengið er,“ segir Fríða.

Fyrir þá sem vilja byrja í fjallgöngu, hvaða ráð hafið þið?

„Fyrst og fremst að byrja hægt og rólega og velja sér fell eða fjöll við hæfi. Sumum hentar að byrja bara á láglendisgöngum en mikilvægt er að styrkja bæði vöðva og liði. Gangan niður á við reynist mörgum mjög erfið því það vantar styrkinn. Léttar gönguleiðir eru víða í nágrenni okkar á höfuðborgarsvæðinu og eins á Reykjanesinu, því þá er hækkunin ekki meiri en 200-300 m, sem er viðráð- anlegt öllu frísku fólki. Esjan er há, hún er 912 m og ekki auðveldust fyrir byrjendur því fólk getur sprengt sig en sannarlega er hægt að taka hana í áföngum. Það er því mikilvægt að byrja á lægri fjöllum og styttri göngum og trappa sig svo upp, góðir hlutir gerast hægt,“ segir Fríða.

Nánar er rætt við Fríðu og Þórð í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu. Lesendur geta nálgast blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Eftir vinnu  • heilsa  • Fjallavinir