*

Ferðalög & útivist 10. júlí 2013

Ferðamenn gera sér upp veikindi til að lengja fríin

Ástæður sem ferðamenn gefa upp til að fá betri sæti í flugvélum eða betri hótelherbergi eru oft vafasamar samkvæmt breskri könnun.

Næstum 17% breskra ferðamanna viðurkenndu að hafa blekkt flugfélag eða hótelstarfsfólk til að fá betra sæti í flugvél eða betra hótelherbergi í könnun á vegum TripAdvisor. Þetta kemur fram á The Telegraph í gær. 

Og lygarnar einskorðast ekki bara við flugferðirnar hjá ferðamönnum því í annarri könnun þar sem 12 þúsund ferðamenn svöruðu kom í ljós að einn af hverjum átta hafði gert sér upp veikindi svo þeir gætu lengt fríið sitt.

Rætt var við starfsfólk flugfélaga í 83 löndum og þá kom í ljós að vel klæddir, einhleypir menn á fertugsaldri væru líklegastir til að fá betra sæti í flugi. Þeir farþegar sem eiga hins vegar minnstu vonina að fá að sitja í góðu sætunum á fyrsta farrými fyrir velvild starfsfólks eru konur á tvítugsaldri, í flegnum fötum, sem ferðast margar saman.  

Í könnuninni kom einnig fram að 82% svarenda sögðu að kurteisir farþegar væru líklegri til að fá betra sæti og 72% sögðu að fólk sem væri eitt á ferð fengi frekar gott sæti. 65% svöruðu hins vegar að slasaðir farþegar væru líklegastir til að fá betra sæti.

Stikkorð: Flug  • Ferðalög  • Svik og prettir