*

Menning & listir 2. janúar 2014

Riðu yfir ár frá Hornafirði til Selfoss

Hópur hestamanna reið yfir öll vatnsföll á Suðurlandi sumarið 2009.

Sumarið 2009 riðu nokkrir hestamenn öll vatnsföll á Suðurlandi, frá Hornafirði til Selfoss. Engar brýr voru notaðar á leiðinni og var því sundriðið þar sem aðstæður kröfðust þess. Tilgangur ferðarinnar var m.a. sá að vekja athygli á því við hvaða aðstæður fólk bjó á Suðurlandi  og flestir aðrir landsmenn fyrir ekki svo löngu síðan og hvaða hlutverki íslenski hesturinn gegndi í lífi þess fólks áður en ár voru brúaðar.

Hermann Árnason, forsprakki hestamannanna, segir í bók sem tekin hefur verið um ferðina, að hann hafi gengið með hugmyndina að henni í maganum í mörg ár. „Það var einfaldlega komið að því að láta drauminn rætast. Mér hefur alltaf þótt heillandi að lesa um gömlu landpóstana. Ferðalög forfeðranna um þetta svæði eru mér líka hugleikinn, Flosa í Svínafelli og fleiri kappa. Og líkt og fjaller áskorun fyrir fjallagarpa, þá er á áskorun fyrir hestamann,“ segir hann. 

Bókina setti saman hestablaðamaðurinn landskunni, Jens Einarsson. Hana prýða mikill fjöldi mynda, bæði frá ferðum fólks á fyrri tíð og í ferðinni sumarið 2009. Það er Eiðfaxi, útgáfa samnefnds hestatímarits, sem gefur bókina út og kemur hún út á bæði íslensku, þýsku og ensku.

Stikkorð: Jens Einarsson  • Vatnagarpar