*

Ferðalög & útivist 21. maí 2013

Fimm áfangastaðir fyrir fólk í ástarsorg

Þegar fólk er í ástarsorg er stundum mælt með góðu fríi. En hvert? Hvar er best að sleikja sárin eftir það volæði sem fylgir ástarsorg?

Það skiptir máli hvaða staður er valinn þegar hlúa skal að brotnu hjarta. Stressuð stórborg eða gólandi tívolí eru ekki heppilegir staðir fyrir fólk sem er viðkvæmt og brothætt. Fólk í ástarsorg þarf ró, náttúrufegurð og andlega upplyftingu.

BBC hefur tekið saman þá fimm staði sem þykja heppilegir fyrir fólk í ástarsorg. Þeir koma hér: 

Hjólreiðatúr um Ítalíu

Túrinn „Singles-Solos tour of Piedmont“ er tilvalinn fyrir einhleypa sem þurfa eitthvað hresst í sitt líf. Hjólað er um vínhéruð og falleg þorp í dásamlegu landslagi. Engin hætta er á því að þurfa að horfa upp á ástfangin pör í ferðinni því pörum er ekki heimilt að skrá sig í ferðina. Stoppað er á leiðinni eins og til dæmis í kastala frá 10. öld í vínsmökkun. Einnig er stoppað í gömlu klaustri frá 16. öld sem búið er að breyta í hótel sem er þekkt fyrir súkkulaði trufflur.

 Náttúrulíf í Perú

Fyrir þau sem vilja ekki endilega ferðast ein eftir sambandsslit væri pæling að skrá sig í hóp sem þvælist um Perú í leit að bleikum höfrungum eða litlum öpum í 10 daga túr eftir Amazonfljóti í Perú. Gist er í kofum sem eru bara fyrir einstaklinga.

Tilboðspakki fyrir fráskilið fólk á Bahamaeyjum

Kamalame Cay er lúxushótel sem samanstendur af 19 villum á strandlengju á Andros eyju. Á meðan mörg lúxushótel á Bahamaeyjum bjóða upp á tilboðspakka fyrir brúðhjón þá býður Kamalame Cay upp á tilboðspakka fyrir fráskilið fólk. Innifalið í tilboðinu er köfunarferð, veiðitúr og meðferðir í heilsulind. Fólki er boðið að segja frá uppáhalds drykknum sínum, tónlist og öðru sem það heldur upp og síðan má það eiga von á óvæntum uppákomum alla ferðina.

Matreiðslunámskeið í fallegu umhverfi á Flórída

The Biltmore hótel býður upp á þriggja daga matreiðslunámskeið. Slíkt þykir tilvalið fyrir fólk sem er í ástarsorg því eldamennska dreifir huganum. Það kynnist öðru fólki og síðan setjast allir saman og borða dásamlegan mat í huggulegu umverfi. Biltmore hótelið var byggt 1926 og þykir einstaklega fallegt og smekklegt.

Fljúgandi íkornar í Nova Scotia

Trout Point Lodge í Nova Scotia er algjörlega hannað fyrir þau sem vilja slaka á. Það er ekkert sjónvarp eða símasamband á svæðinu. Gestir geta rölt um og leitað að skógarbjörnum eða fljúgandi íkornum sér til dægradvalar. Einnig er boðið upp á matreiðslunámskeið þar sem kennt er að elda sjávarrétti og annað lostæti.