
Á vinnumarkaðinum í dag eru margir vel menntaðir og reynslumiklir einstaklingar um hverja stöðu. Því er mikilvægt að vekja athygli í atvinnuviðtalinu, á góðan hátt.
Jorg Stegemann er höfundur bloggsins: „My Job Thoughts: Career Advice From a Headhunter". Hann er einnig greinarhöfundur á Forbes og hefur skrifað greinina „Seven Things A Headhunter Won´t Tell You.“ Hann gefur góð ráð í nýrri grein á Forbes þar sem hann tekur saman fimm algeng atriði sem ráða úrslitum um það hvers vegna fólk fær ekki vinnuna sem það sækist eftir og hvað það er sem klikkar í atvinnuviðtalinu.
1. Feill á fyrstu 30 sekúndunum: Á fyrstu 30 sekúndunum er mjög algengt að fólk myndi sér skoðanir á fólki. Þá er gott að hafa hluti eins og klæðnað, viðmót og handaband í lagi. Mikilvægt er manneskja hagi sér eins og hún hafi áhuga á því að fá starfið.
2. Engar spurningar: Þegar umsækjanda gefst tækifæri á að spyrja spurninga þá er eins gott að gera það og hafa þær í gáfulegri kantinum.
3. Óviðeigandi spurningarnar: Ef tilgangurinn er að komast í annað viðtal er mikilvægt að haga spurningunum eftir því og spyrja út í starfið sjálft en ekki ræða launamál eða önnur praktísk atriði.
4. Lélegur undirbúningur: Umsækjandi verður að lesa allt sem hann finnur um fyrirtækið á netinu og helst kynna sér bakgrunn þeirra sem taka viðtalið ef hægt er.
5. Vandræðalegur endir: Ef umsækjandi er spurður í lokin hvort hann vilji bæta einhverju við er algjörlega naupsynlegt að segja örstutt frá því að hann hafi mikinn áhuga á starfinu, fyrirtækinu og taka fram örstutt að hann telji sína reynslu og kosti hæfa starfinu vel.