*

Ferðalög & útivist 12. nóvember 2013

Hafðu þetta í huga fyrir næstu hóteldvöl

Ekki stela sloppnum, ekki láta rukka þig of mikið og mundu að læsa herberginu.

Ef halda skal í ferðalag og ætlunin er að gista á hóteli þarf nú aldeilis að hafa eitt og annað í huga. Á fréttasíðunni News 24 er gagnleg grein fyrir alla hótelunnendur: 

Öryggismál: Ekki halda að eigur þínar séu öruggar þó að herbergið sé læst. Ekki láta fjármuni, vegabréf eða önnur verðmæti liggja á glámbekk. Ef þú átt ekki von á neinum og einhver bankar skaltu ekki svara. Ef hægt er að læsa með slagbrandi skaltu ekki hika við að gera það.

Hreinlæti: Ekki gera ráð fyrir því að glös á baðherbergjunum séu endilega þrifin með sápu. Hér væri gott að vera með hreinsiklúta, sem eyða bakteríum, og strjúka yfir helstu staðina á baðherberginu og einnig helstu handföng á hótelherberginu.

Aukakostnaður: Skoðaðu míní-barinn áður en herbergið er yfirgefið og passaðu að láta ekki rukka þig aukalega fyrir neitt sem þú hefur ekki tekið. Skoðaðu einnig reikninginn vel þegar internetkostnaður er rukkaður og að þar sé allt á hreinu.

Ekki stela: Ekki láta þig dreyma um að taka baðslopp eða handklæði með þér heim. Þessir hlutir verða rukkaðir síðar meir. Aðrar reglur gilda um litlu sjampóin og sápurnar en það er að sjálfsögðu í lagi að fylla veskið af slíkum dýrðarvörum.

Ekki gleyma neinu: Tannburstar, skór í skápum og hleðslutæki eru í mikilli hættu á að gleymast þegar fólk tékkar sig út af hótelherbergjum. Mundu að fara annan rúnt um herbergið þegar þú heldur að allt sé komið. Það gleymist alltaf eitthvað.

 

Stikkorð: Hótel  • Vandræði  • Vesen  • Örvænting