*

Matur og vín 14. maí 2013

Fimm bestu kebabstaðir í heimi

Kebab var matur Ottóman sóldána og Persa og nú á síðustu árum, drukkinna Vesturlandabúa.

Kebab er vinsæll matur um allan heim. Á síðustu árum og þá sérstaklega á Vesturlöndum hefur kebab notið vinsælda hjá fólki sem er hugsanlega búið að fá sér einn eða tvo drykki og á heimleið af barnum. Þetta er sérstaklega vinsælt hjá Bretum. Svona eins og heimsókn á Hlöllabáta hjá 70% bargesta á vissum aldri hér á landi. 

Í Miðausturlöndum er kebab hins vegar máltíð sem öll fjölskyldan sameinast yfir og borðar. Og máltíðin er borðuð á heiðarlegum tíma en ekki um miðja nótt á götuhorni. 

Hér koma tillögur CNN að fimm bestu kebabstöðum í heimi:

1. Barbar í Beirút, Líbanon.

Barbar er keðja með staði víðs vegar um Beirút. Móðurskipið er í hverfinu Hamra og er fullur alla daga. CNN mælir með kjúklingakebab en segir samt allt annað vera gott á matseðli Barbar.

2. Öz Asmaalti Kebap & Döner Salon í Adana, Tyrklandi.

Adana er frægastur fyrir kryddaða lambakjötið og safaríka grænmetið sem þykir ómissandi á kebabinn.

3. Nagí in Abu Ghosh í Ísrael

Gyðingar og arabar sitja hlið við hlið á Nagí og eru alla vega sammála um eitt: Kebabinn er góður.

4. Santoríní and Kolonaki, Grikklandi.

Jógúrtsósan eða tzatziki er þykk og bragðmikil en þjónustan er víst ekki upp á marga fiska en það skiptir engu máli því maturinn bætir upp fyrir það. 

5. Salva Restaurant í Bijar, Íran.

Kebab er vinsæll matur í Íran. Hrár laukur, grillaður tómatur og jafnvel kíví ávöxtur er nauðsynlegt meðlæti til að halda jafnvæginu í kebabmáltíðinni samkvæmt persneskri speki. Og það er einmitt það sem Salva í Bijar sérhæfir sig í, hinu ómissandi meðlæti.  

Stikkorð: Grikkland  • Íran  • Matur  • Tyrkland  • Kebab