*

Hitt og þetta 15. mars 2013

Sjö ómissandi hlutir í bústaðinn

Sumu má einfaldlega ekki gleyma þegar farið er af stað upp í sumarbústað.

Lára Björg Björnsdóttir

Hvort sem þú átt bústað, leigir bústað eða felur þig í skottinu hjá nágrannanum þegar hann fer í bústað, þá er að mörgu að huga áður en lagt er af stað í helgarferð upp í sumarbústað.

Viðskiptablaðið fór rúntinn og kíkti ofan í ferðatöskur Íslendinga og fann út hvað er algjörlega ómissandi í sumarbústaðinn yfir helgina.

Trivial Pursuit. Þetta er spilið sem skilur á milli lífs og dauða í bústaðarferðum. Hvort sem spilað er upp á heiður, peninga eða um hver fær að þrífa pottinn eftir helgina þá er allavega eitt á hreinu: Það kemur í ljós hver er klár og hver ekki þegar þetta dásamlega borðspil er dregið upp og því skellt á furuborðið innan um þurrkuðu blómin og gömlu sófasettin sem enginn vill lengur eiga.

Möndlukaka frá Myllunni: Verksmiðjubragð af bakkelsi er viðeigandi þegar dvalið er í bústað. Heimabakað er merki um streð og vesen og hver hefur tíma fyrir slíkt þegar þarf að huga að niðurpökkun fyrir heila fjölskyldu og jafnvel stórfjölskyldu? Ekki sá sem kann að fara í bústað. Hann borðar kökur sem renna út eftir 2 vikur og voru jafnvel bakaðar fyrir viku. Fátt er notalegra í sveitinni en rotvarnarbragð með kaffinu.

Hundur/Hundar. Hér skiptir tala hundanna ekki endilega máli heldur fælingarmátturinn. Alvöru bústaðir eru afskekktir þar sem fáir eru á ferli. Engum finnst gaman að fá þjófaflokk inn um stofugluggann þegar verið er að kveikja á gufunni og fá sér kakó. Svo þá er gott að vera með besta vininn með í för sem getur elt óvandað hyski út og langt í burtu.

Vertu Jack Nicholson í As Good as it Gets. Ef bústaðurinn er leigður þá skaltu ekki taka neinn einasta séns á því að hlutirnir séu í lagi. Taktu með þér silfrið og allskyns annan borðbúnað (ekki plasthnífapör og pappadiska, reynum að sýna landsbyggðinni smá virðingu) ef það sem boðið er upp á skyldi vera súrt og kámugt. Það vill enginn nota gamlan beyglaðan bolla undir neskaffið.

 

Míkadó. Gömul og einföld spil eða leikir eru ótrúlega vanmetin. Man einhver eftir míkadó? Þetta er stórsniðugt fyrir alla fjölskylduna að spila saman við kertaljós. Sá sem tapar fær ekki að fara á netið í klukkutíma.

 

Fín föt. Ekki haga þér eins og róni þó þú sért komin upp í sumarbústað. Væri ekki gaman að brjóta daginn upp og láta alla fjölskylduna klæða sig í sparifötin áður en kótilettunum er skellt á grillið? Setja rúllur í stelpurnar og vatnsgreiða litla prinsinum og láta alla stilla sér upp við hliðina á Trivial Pursuit altarinu og Myllukökunni? Keyra þetta aðeins í gang?

Rakettur. Ekki fara upp í bústað og láta bara engann fatta að þú sért MÆTT(UR). Taktu með þér afgangs flugelda frá áramótunum og skjóttu draslinu upp um miðnætti. Syngdu svo eitthvað fallegt úti á palli eins og "Krókinn" með Sálinni eða "Angels" með Robbie Williams.