*

Bílar 3. desember 2021

Fimm sekúndur í hundraðið

Porsche hefur komið fram með aðra kynslóð sportjeppans Cayenne, sem er blanda af lúxus- og sportbíl.

Róbert Róbertsson

Þýski sportbílaframleiðandinn Porsche hefur komið fram með aðra kynslóð af sportjeppanum Cayenne í tengiltvinnútgáfu. Þessi magnaði sportjeppi getur gengið eingöngu fyrir rafmagni, eingöngu fyrir bensíni eða virkjað báða aflgjafana jöfnum höndum.

Klassískur og fallegur

Porsche Cayenne er fagurlega hannaður með sportlegar en um leið kraftalegar línur. 21 tommu álfelgurnar setja flottan svip á heildarútlitið og atriði eins og samlitir brettakantar og sport púststútarnir að aftan gera sitt líka til að auka áhrifin.

Að innan er Cayenne klassískur og fallegur, ekta Porsche útlit þar sem vandað er sérlega vel til verka. Porsche-skjaldarmerkið á stýrinu og ræsihnappurinn er vinstra megin niðri við stýrið sem er klassískt frá þýska sportbílaframleiðandanum. Það er mikill lúxus í innanrýminu og leðurklædd sætin afar þægileg. Helsta breytingin er að snertitakkar eru nú í miðjustokknum.

Mögnuð hröðun

Vélin er þriggja lítra, sex sílindra bensínvél með rafmótor. Afl tengiltvinnvélarinnar er 350 kW eða 462 hestöfl. Þar af koma 136 hestöfl frá rafmagnsmótor sem staðsettur er að framan. Hámarkstogið er 700 Nm sem er ansi mikið. Hámarkshraði bílsins er 243 km/klst. Hámarkshraði á rafmagni er 125 km/klst. Hröðun frá kyrrstöðu í hundraðið er aðeins 5 sekúndur sem er magnað fyrir svo stóran og þungan bíl. Eyðslan er uppgefin 3,2-3,4 lítrar á hundraðið og CO2 útblástur er 72-78 g/km samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Sportbílagenin skila sínu

Cayenne er hörkugóður akstursbíll enda með sportbílagenin í blóðinu. Hann er talsvert mikil blanda af lúxus- og sportbíl. Stundum finnst mér eins og ég sé að keyra minni bíl en raun ber vitni þar sem sportbílaeiginleikarnir eru svo ríkir í honum. Nýr Cayenne er með fjögur aksturskerfi, normal, sport og sport plus og auk þess eitt sérsniðið að hverjum og einum ökumanni. Með Sport Chrono pakkanum er hægt að skipta á milli akstursstýringa með takka í stýrinu, aðgerð sem Porsche bauð fyrst upp á í 918 Spyder sportbílnum. Cayenne er með átta gíra tiptronic sjálfskiptingu með skiptingu í stýrinu og sjálfvirka Start-Stop tækni.

Beygir á öllum hjólum

Cayenne beygir á öllum fjórum hjólum og það finnst hversu stöðugur og nákvæmur hann er í beygjum og þegar skipt var um akrein jafnvel þótt hratt sé ekið. Stýringin er sérlega góð og þar spilar inn í tæknivæddur, rafeindastýrður fjöðrunarbúnaður sem er í Cayenne. Átta hraða Tiptronic S gírkassinn býður upp á hraðar skiptingar og eykur enn betur aksturseiginleikana og sérstaklega þá sportlegu. Cayenne gefur ekkert eftir þegar ekið er á malarvegi og hann hefur mjög góða torfærueiginleika enda er hann stór og mikill sportjeppi. Það er nóg pláss fyrir ökumann og fjóra farþega sem og farangur. Dráttargeta Cayenne er 3,5 tonn. Bíllinn er 4.918 mm að lengd, 1.983 mm að breidd og 1.696 mm á hæð. Hjólhafið er 2.895 mm.

Rafhlaðan stækkuð

Rafhlaðan hefur verið stækkuð úr 14,1 kW í 17,9 kW sem eykur drægni bílsins á rafmagni um 30%. Það ætti að gera sportjeppann enn álitlegri kost í augum þeirra sem vilja komast sem lengst á rafmagninu og án þess að þurfa að brenna bensíni. Porsche Cayenne er nú í boði með flottum aukapakka sem alla jafna myndi bæta tveimur milljónum ofan á grunnverð bílsins, sem er 14.990.000. Í stað þess er pakkinn boðinn á 990 þúsund og inn í honum eru 21 tommu álfelgur, samlitir brettakantar, klassa leðurinnrétting, 360° myndavél, svartlitaðir háglanslistar á hliðarrúðum, sportlegir púststútar, litað gler, og síðast en ekki síst magnað Bose-hljóðkerfi með 14 hátölurum sem gera sportjeppann að tónleikahöll.