*

Ferðalög 27. júní 2013

Fimm stjörnu hótel inni í helli

Óvenjulegt lúxushótel mun brátt rísa nálægt Sjanghæ í Kína. Hótelið verður að hluta til inni í helli.

Stórt hótel mun brátt rísa í Songjiang héraði nálægt Sjanghæ í Kína en hótelið verður að hluta til inni í helli. Breska hönnunarfyrirtækið Atkins mun hanna hótelið og markmiðið er að gera það eins umhverfisvænt og hægt er. The Telegraph segir frá á fréttasíðu sinni í gær.

Til stendur að byggja hótelið, sem verður fimm stjörnu, utan í klettavegg en hótelið verður einnig byggt inn í klettana og útsýni verður yfir stórt stöðuvatn.

Intercontinental hótelkeðjan stendur fyrir framkvæmdunum og er áætlað að kostnaðurinn verði 65 milljarðar króna.

Hótelið verður mjög sérstakt en 100 metra hár foss mun falla af þakinu og niður á fyrstu hæðina og verður sýnilegur frá svefnherbergisgluggum. Á hótelinu verður boðið upp á heilsulind og sundlaugar en einnig klettaklifur og teygjustökk.

Stefnt er að því að opna hótelið á síðari hluta ársins 2014 og munu herbergin kosta um 38 þúsund krónur nóttin. 

Stikkorð: Kína  • Foss  • lúxushótel  • Kína