*

Ferðalög & útivist 15. maí 2013

Ferðamannaparadísir sem banna börn

Fyrir fólk sem nennir ekki annarra manna börnum og þreyttar húsmæður sem þora þá er hér afar áhugaverður listi.

Stundum er góður matur, falleg strönd og stórkostlegt veður ekki nóg ef gólandi barnahjörð er á næsta bekk að kasta frönskum kartöflum út í sundlaugina.

Sumum er alveg sama og taka ekki eftir hátíðni öskrum og öðrum hressleika í sumarfríinu en aðrir eru ekki svo ánægðir þegar litli prinsinn/prinsessan á næsta borði kastar humarhalanum ofan í næsta vínglas og syngur 10 grænar flöskur á meðan Söngvaborg ómar yfir veitingastaðinn í ipadnum.

Fyrir fólk sem vill frið frá börnum, og jafnvel sínum eigin börnum, þá eru til hótel sem banna hreinlega börn. CNN fjallar um málið hér en skoðum hótelin nánar:

Glenmere Mansion, Hudson Valley í New York.

Sveitahótelið Glenmere Mansion er í 80 kílómetra fjarlægð frá Manhattan. Hótelgestir, og þeir sem heimsækja veitingastaðinn, verða að vera eldri en 18 ára. Húsið var byggt árið 1911 og er með 18 herbergi, allt frá venjulegum herbergjum og upp í stórar svítur. Allt á hótelinu er elegant, hvert einasta herbergi er sérstaklega hannað og engin tvö herbergi eru eins. Gestir geta rölt um fína hótelið, setið við arineld í bókasafninu, synt í sundlauginni eða spilað krikket úti á túni.

Twin Farms, Barnard, Vermont

Þetta er hótelið fyrir þá sem vilja frið, ró og næði. Hótelið býður upp á svítur og litil hús svo hótelgestir geta komist upp með að hitta engan annan á meðan á dvölinni stendur. Falleg listaverk hanga á öllum veggjum og á veturna geta gestir skíðað í friði niður hlíðar sem aðeins hótelgestir hafa aðgang að. Hótelið leyfir börnum að gista nokkrum sinnum á ári svo það er vissara að kanna það áður en lagt er í hann.

El Dorado Casitas Royale, Riviera Maya, Mexíkó. 

Þetta er hótelið fyrir þau sem vilja slaka á í algjörum friði og ró. Hótelgestir eru algjörlega í næði í litlum húsum á ströndinni sem eru með einkanuddpotti, sólbekkjum og þjóni. Rétt við ströndina eru síðan veitingastaðir og sundlaugar.

The Out NYC, New York.

The Out NYC er ársgamalt hótel og er athvarf fyrir þá sem þurfa frið, í miðri borg. Fá hótel í borg setja aldurstakmörk en The Out gerir það og getur enginn yngri en 21 árs fengið herbergi á hótelinu.

Ponta dos Ganchos, Santa Catarina, Brasilía.

Hótelið Ponta dos Ganchos er svo langt úr alfaraleið að ekki er óalgengt að gestir komi með þyrlu. Hótelið er á skaga og samanstendur af 25 villum með einkaverönd og hengirúmum þar sem gestir geta lagt sig og horft yfir hafið. Fínni villurnar bjóða upp á litlar sundlaugar, gufubað og nuddpott.

Yellow Lagos Meia Praia Hotel, Lagos, Portugal

Lagos þykir einn fallegasti staðurinn í Portúgal. Svæðið er vinsælt en á hótelinu Yellow eru gestir eldri en 17 ára. Hótelið er nálægt golfvelli og í göngufjarlægð frá gamla bænum í Lagos þar sem fjölmargir veitingastaðir bjóða upp á dýrindis fisk. 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Friður  • lúxushótel  • Næði  •  • Sumarleyfi