*

Ferðalög & útivist 9. september 2013

Fimmtíu ástæður til að heimsækja Tókýó

Vinsældir Tókýó munu eflaust aukast næstu árin þökk sé vali Ólympíunefndarinnar á borginni fyrir Ólympíuleikana 2020.

Fagnaðarlæti brutust út um alla Tókýó um helgina þegar tilkynnt var að Sumar-Ólympíuleikarnir 2020 yrðu haldnir í borginni.

Skiptar skoðanir eru á valinu hjá nefndinni en CNN hefur tekið saman fimmtíu ástæður þess að elska Tókýó. Skoðum nokkrar:

Fullkomið lestarkerfi. Í Tókýó eru 13 neðanjarðarlestarlínur og yfir 100 venjulegar lestarlínur. Kerfið er svo gott að talað er um að það sé hannað til að vinna verðlaun og erfitt sé að finna stað í borginni sem ekki er hægt að komast á með lest.

Flestar Michelinstjörnur heims. Stjörnurnar sem prýða veitingastaðina eru 375 talsins sem er heimsmet. Í borginni eru yfir 160 þúsund veitingastaðir sem er tíu sinnum fleiri en í París.

Flestir barir á fermetra: Í Golden Gai er svo mikið af börum að það er nóg að stíga út af einum bar og þú ert komin(n) inn á annan. Á svæðinu eru 200 litlir barir. Sumir þeirra eru svo litlir að það komast bara fimm manns í sæti. 

Stærsti fiskmarkaður í heimi: Á  Tsukiji-shijo markaðnum er verslað með 2000 tonn af fiski á dag. Kúnnarnir eru heimamenn, veitingahúsafólk og fisksalar.