*

Hitt og þetta 8. febrúar 2016

Fimmtíu króna myntin þykir fegurst

61% gesta sem mættu í Myntsafn Seðlabanka Íslands á Safnanótt eru sammála um að fimmtíu króna myntin sé fegurst.

Eydís Eyland

Á Safnanótt síðastliðið föstudagskvöld kusu gestir Myntsafns Seðlabankans fimmtíu króna myntina þá fegurstu af þeim myntum sem í gildi eru í dag. 61% gesta sem mættu í safnið voru þeirrar skoðunar að fimmtíu króna myntin væri fegurst og kusu starfsmenn bankans einnig fimmtíu krónurnar fegurstu myntina. Gestir og starfsmenn bankans voru nokkuð sammála því að fimm króna myntin valin sú næst fallegasta.

Fyrir ári síðan var kosið á sama hátt um fegursta seðilinn sem er í gildi. Þar voru starfsmenn bankans og gestir sammála um að tvö þúsund króna seðillinn væri sá fegursti. Mjótt var á mununum því tíu þúsund króna seðillinn kom fast í kjölfarið hjá báðum hópum. Alls voru 32% sammála því að tvö þúsund króna seðillinn væru sá fegursti og 31% að tíu þúsund króna seðillinn væri fegurstur.