*

Menning & listir 6. febrúar 2018

Fimmtíuþúsundasti gesturinn á Elly

Um helgina kom fimmtíuþúsundasti gesturinn á sýninguna Elly í Borgarleikhúsinu.

Sýningin, sem fjallar um ævi og ástir Ellyjar Vilhjálms, hefur nú verið sýnd 120 sinnum, 54 sinnum á Nýja sviðinu síðasta vor og 66 sinnum síðan hún var færð yfir á Stóra sviðið í haust, og alltaf fyrir fullu húsi.

Það var Hildur Helga Kristjánsdóttir, áskriftarkortshafi í Borgarleikhúsinu, sem var 50.000. gesturinn og var hún kölluð á svið og leyst út með gjöfum eftir sýningu í gærkvöldi. Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem leikur Elly, og Ragnar Bjarnason tilkynntu þetta á sviðinu eftir að hafa sungið eitt lag saman að lokinni sýningu.

Nú á eftir að sýna Elly 17 sinnum á þessu leikári áður en hlé verður gert á sýningum þar til í september. Uppselt er á allar þessar sýningar og er sala á sýningarnar næsta haust hafin.