*

Sport & peningar 22. júní 2017

Finni í nýliðavali NBA

Nýliðaval NBA deildarinnar fer fram í kvöld.

Nýliðaval NBA hefst í New York í kvöld. Talið er nánast öruggt að leikstjórnandinn Markelle Fultz, sem lék með Washington háskóla í vetur, verði valinn fyrstur. Boston Celtics átti fyrsta valrétt en í vikunni skipti Boston við Philadelphia 76ers. Philadelphia fær þar með fyrsta valrétt en Boston fékk í staðinn þriðja valrétt og valrétt í fyrstu umferð á næsta ári. LA Lakers eiga annan valrétt.

Finnar eiga einn leikmann í nýliðavalinu en það er framherjinn Lauri Markkanen sem lék með Arizona háskóla í vetur. Talið er að Markkanen, sem mun mæta íslenska landsliðinu á EM í lok sumars, verði valinn mjög fljótlega í fyrstu umferð.