*

Matur og vín 15. febrúar 2014

Fiskfélagið – fyrir þau kröfuhörðu

Humarrétturinn var vel útílátinn og fiskurinn hæfilega mikið eldaður hjá Fiskfélaginu.

Matarrýnir fór að þessu sinni út að borða á veitingastaðinn Fiskfélagið. Veitingastaðurinn er vinsæll og þá sérstaklega hjá ferðamönnum en fullt var á staðnum á föstudagskvöldi núna snemma í janúar.

Staðurinn er hlýlegur og stemningin þægileg en aldrei varð maður var við of mikinn hávaða eða klið þrátt fyrir þéttsetinn salinn. Fyrir valinu var sushi og humar. Sushi-rétturinn er reyndar forréttur en þjónninn sagði lítið mál að stækka réttinn upp í aðalrétt. Það verður að segjast að sushi-ið á Fiskfélaginu er líklega það besta sem matarrýnir hefur smakkað á Íslandi.

Rétturinn samanstendur af djúpsteiktri humarrúllu, laxi, linskelskrabba og túnfiski. Með þessu kemur poppað bygg, chili krem, soja og wasabi. Rétturinn er borinn fram á stórum viðardiski og framsetningin er virkilega smekkleg og lystaukandi. Fiskurinn var ferskur og bragðgóður og hlutfallið á milli hrísgrjóna og fisks fullkomið. Skammturinn var passlega stór, hvorki of lítið né of mikið.

Humarrétturinn samanstendur af blackeruðum skötusel og humri með humarvorrúllu. Fiskurinn og skelfiskurinn eru bornir fram með sósum og kryddum sem koma á óvart og er spennandi að smakka þetta ólíka bragð sem jafnframt vinnur svo vel saman svo sem lemongrass gel, chili, ananas og bjórfroða.

Rétturinn er vel útilátinn og fiskurinn hæfilega mikið eldaður. Humarhalirnir voru sérlega stórir og ferskir. Verðið er í hærri kantinum eða 7.400 krónur og er rétturinn langdýrasti staki rétturinn á seðlinum en ætli heimsmarkaðsverð á humri ráði ekki einhverju þar um. Verðið á sushi-réttinum var mun lægra og þó var hann engu síðri.

Um þjónustuna er ekki annað að segja en að hún hafi verið fumlaus, vingjarnleg og fagmannleg.

Matarrýnin birtist í Viðskiptablaðinu 13. febrúar 2014. 

Stikkorð: Veitingarýni  • Fiskfélagið