*

Veiði 24. apríl 2012

Fiskifluga Engilberts

Straumflugurnar sem Jensen hefur hnýtt fyrir lax og silung eru hrein listaverk.

Pálmi Gunnarsson

Pálmi Gunnarsson skrifar veiðipistil í Viðskiptablaðið:

Saga fluguveiða er samofin heimssögunni frá þeim tíma er veiðimenn hófu að ullarvefja beinkróka löngu fyrir Krist. Í dag búa fluguveiðimenn við allt það besta sem hægt er að hugsa sér í stöngum, hjólum, línum og fatnaði, og fluguköst eru orðin að hálfgerðri listgrein hjá mörgum fluguveiðimönnum.

Svo eru það snillingarnir sem hanna og hnýta flugur. Saga fluguhnýtinga er býsna löng en nákvæmar eftirlíkingar af þurrflugum voru þegar gerðar á sextándu öld. Í dag keppast fluguhnýtarar við að ná sem nákvæmustu eftirlíkingum af lirfum, púpum, flugum, seiðum og smáfiskum. Klassísku laxaflugurnar eru listaverk en í þær voru á sínum tíma notaðar fjaðrir sem ekki eru fáanlegar lengur þar sem fuglar sem létu þeim í té fjaðrir eru ekki lengur til.

Við Íslendingar eigum marga fluguhnýtingasnillinga. Þessir fluguhnýtarar hafa hannað flugur sem eru svo góðar að menn vilja helst ekki fara í veiðiferð án þess að eiga eintök af þeim í boxinu.

Vinur minn, Engilbert Jensen söngvari, er einn þeirra.

Ég hef fylgst með ferli hans sem fluguhnýtara og fluguveiðimanns frá byrjun og eins og við var að búast, tók hann þetta alla leið frá byrjun. Það er alltaf jafn ánægjulegt að kíkja í heimsókn til Jensen og fá að skoða það nýjasta sem verið er að hanna og fá eintök til að prófa í næstu veiðiferð. Þurrflugurnar frá Jensen eru eins góðar og slíkar flugur geta orðið. Púpurnar eru sér kapítuli en Jensen á það til að velta við steinum og ná í fyrirmyndirnar.

Toppflugupúpan er afrakstur slíkra æfinga og er fræg um allan heim. Straumflugurnar sem Jensen hefur hnýtt fyrir lax og silung eru hrein listaverk. Allt einhvernveginn rétt gert. Uppáhaldslaxaflugan mín, Fiskiflugan, kemur úr smiðju söngvarans, fluga sem sem ég læt mér ekki detta í hug að fara í laxveiðiferð án. Hún er hnýtt á léttan einkrók og lítið dressuð. Sérstaklega hentug fyrir yfirborðsveiði og gáruhnút.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 18. apríl 2012.