*

Veiði 29. júní 2018

„Fjandinn, ég elska Ísland“

David Beckham birtir mynd af sjálfum sér og Björgólfi Thor við veiðar í Norðurá.

David Beckham og Björgólfur Thor er nú við veiðar í Norðurá. Beckham birti mynd af sér og Björgólfi saman á Instagram þar sem þeir eru við Laxfoss, en þar eru margir af betri veiðistöðum árinnar eins og Brotið, Konungsstrengur og Eyrin. 

„Þeir eru kannski ekki lengur með á HM en fjandinn ég elska Ísland,“ skrifar Beckham á Instagram, þar sem hann hefur birt fjölda mynda af veiðiferð sinni. Á einni myndinni er hann að þreyta lax, á annarri heldur hann á silfurbjörtum smálaxi og á enn annarri er hann með kokteil á bakkanum. Þá birtir hann stutt myndskeið af Norðurá með yfirskriftinni „Wow“. Beckham er því greinilega heillaður af ánni og íslenskri náttúru. 

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa þeir félagar veitt vel. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Beckham veiðir lax á Íslandi því fyrir tveimur árum var hann ásamt Björgólfi í Langá á Mýrum.

Stikkorð: Björgólfur Thor  • Norðurá  • David Beckham  • veiði