*

Sport & peningar 16. júlí 2012

Fjárhagslega hliðin á Annie Mist

Annie Mist Þórisdóttir er heimsmeistari í CrossFit annað árið í röð – hefur unnið sér inn rúmar 60 milljónir króna með sigrunum.

Gísli Freyr Valdórsson

Annie Mist Þórisdóttir sigraði í dag heimleikana í CrossFit, annað árið í röð. Þetta er í fyrsta sinn frá því að CrossFit leikarnir voru haldnir árið 2007 sem sami einstaklingurinn sigrar tvö ár í röð.

Annie Mist hlýtur 250 þúsunda dali í verðlaunafé, sem gerir um 32 milljónir króna á núverandi gengi. Í fyrra fékk hún sömu upphæð í verðlaun, sem var á þáverandi gengi um 28,5 milljónir króna. Samanlagt verðlaunafé fyrir að vera heimsmeistari í flokki kvenna í CrossFit tvö ár í röð er því um 60,5 milljónir króna. Til gamans má geta þess að Annie Mist er aðeins 22 ára gömul

Ferill Annie Mistar hefur verið glæsilegur á síðustu árum. Hún tók fyrst þátt í keppninni árið 2009 og lenti þá í ellefta sæti. Þá var hún lengst framan af í 2. sæti en í lokaatrennu keppninnar þurfti hún að framkvæma æfingu sem hún hafði ekki gert áður og hrapaði við það niður stigatöfluna. 

Árið eftir, 2010, lenti hún hins vegar í öðru sæti keppninnar eftir harða baráttu. Það var síðan í fyrra sem hún sigraði leikana og sem fyrr segir sigraði hún aftur í ár. Í millitíðinni, þ.e. frá því að hún tók fyrst þátt, hefur hún tvisvar orðið Evrópumeistari í CrossFit. 

Það var þó fyrst í fyrra sem veitt voru vegleg peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin á heimsleikunum í CrossFit. Það gerðist í kjölfar þess að bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Reebok gerðist helsti styrktaraðili leikanna. Árið 2010 undirritaði Annie Mist styrktarsamning við Reebok eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um. Hún hefur ekki gefið upp hvers konar fjárhæðir er þar um að ræða, en samningurinn felur þó í sér að hún er eitt af andlitum Reebok þegar kemur að CrossFit fatnaði og sjálf kemur hún að hluta til að því að hanna fatnað sem hentugur er fyrir þetta sívaxandi sport. Þá styrkir Reebok hana til ferðalaga og þjálfunar.

Annie Mist æfði lengst af í Boot Camp þar sem hún fékk bæði þjálfun og stuðning fyrir þann feril sem framundan var. Um síðustu áramót söðlaði hún þó um og gekk til liðs við CrossFit Reykjavík, þar sem hún er nú meðal hluthafa. 

Sem fyrr segir nemur andvirði þess verðlaunafés sem hún hefur unnið sér inn á sl. tveimur árum rétt rúmlega 60 milljónum króna. Annie Mist er skráð með lögheimili á Íslandi og greiðir því skatta og gjöld af verðlaunafjármagninu hér á landi. Samkvæmt gjaldmiðlalögum ber henni jafnframt að skila erlendum gjaldeyri til Seðlabankans.

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu af þessari frétt kom fram að skv. heimildum Viðskiptablaðsins hefði Annie Mist ekki leyst út verðlaunafé sitt siðan í fyrra. Það er þó ekki rétt heldur mun Annie Mist hafa komið með allt fjármagnið heim og greitt af því opinber gjöld. Annie Mist er beðin velvirðingar á þessum mistökum og þetta er hér með leiðrétt.