
BMW kynnti á bílasýningunni í Detroit nýjan bíl sem verður með tölustafinn 4. Þessi nýja gerð verður tveggja sæta og í „coupe“ stíl og byggir alfarið á BMW 3-línunni. Fjarkinn verður þó 5 cm lengri en þristurinn, en lægri og enn sportlegri en hinn vinsæli þristur.
Hann líkist óneitanlega 6-línu bíl BMW, en sá bíll byggir á 7-línunni, en er eins og nýi fjarkinn með aðeins tvær hurðir.
BMW mun bjóða nýja fjarkann í M-útfærslu sem talið er að verði öflugasta gerð bílsins. Einnig verður hann í boði sem blæjubíll. Fjarkinn kemur bæði í bensín- og díselútfærslum og vélarnar verða á bilinu 418i upp í 435i.
Óhætt er að segja að nýi bíllinn líti vel út og verður spennandi valkostur í flóruna. Mikið er lagt í innanrýmið eins og búast má við frá þýska lúxusbílaframleiðandanum.