*

Bílar 16. júní 2019

Fjarlægur draumur varð að veruleika

Ívar Örn Smárason atvinnubílstjóri keyrir Scania R580. Hann rekur eigið flutningafyrirtæki, Arnarfrakt.

Ívar Örn Smárason atvinnubílstjóri keyrir Scania R580. Hann rekur eigið flutningafyrirtæki, Arnarfrakt. Hann segir að það að byrja með sitt eigið fyrirtæki í atvinnuakstri hafi verið fjarlægur draumur sem varð að veruleika.

„Ég er á mínu níunda ári sem flutningabílstjóri. Ég ek landshorna á milli hvert sem ég er sendur. Ég ek mikið fyrir Eimskip og er mest að keyra fisk út um allt land. Annars flyt ég hvað sem er, allt sem ég er beðinn um að flytja,” segir Ívar Örn. Hann keypti nýjan Scania flutningabíl á síðasta ári sem hann er afar ánægður með. ,,Þetta er hörkugóður bíll. Hann er teiknaður og uppsettur af mér og smíðaður hjá Scania í Svíþjóð. Bíllinn hentar vel í þessa vinnu. Þetta er svolítið og eins og að smíða Legobíl. Maður pantar hjá sölumanni hvernig maður vill hafa bílinn uppsettan en er búinn að gera ýmsar betrumbætur á bílnum sjálfur. Ég bætti við sjónvarpi og græjum og setti nýjar merkingar og rendur. Hann er að sjálfsögðu merktur Arnarfrakt,“ segir hann.

Slysaðist inn í bransann

,,Þetta var nú fjarlægur draumur að fara að vinna sjálfstætt sem atvinnubílstjóri þótt ég hafi haft brennandi áhuga á bílum síðan ég var smábarn. Ég vann áður á skoðunarstöð hjá Frumherja beint á móti Hringrás brotajárni. Þar voru margir trukkar að koma í skoðun. Það kveikti svolítið áhugann hjá mér. Þetta var svolítið spennandi fannst mér.

Ég kynntist þekktum bílstjóra, Geira svarta, um það leyti sem ég var að taka meiraprófið. Hann eiginlega dró mig út á miðjum vinnudegi í atvinnuviðtal hjá Hringrás. Ég sagði upp hjá Frumherja í kjölfarið og fór að vinna fyrir Hringrás. Þar var ég í fjögur ár og kunni mjög vel við mig. Ég var að vinna þar við alls kyns tæki og tól í ýmsum skrítnum verkefnum m.a. að sækja brotajárn um allt land. Ég var mikið í að keyra á sveitabæi og sækja ýmsa hluti sem áttu að fara í brotajárn. Þetta var mjög góður skóli. Svona slysaðist ég inn í þennan bransa,“ segir Ívar Örn brosandi.

Besta vinna í heimi á göðum dögum

,,Í framhaldi af því byrjaði Stefán Þór Jónsson æskuvinur með fyrirtækið á Ferð og flugi. Hann veiddi mig út úr Hringrásinni og fékk mig til að keyra fyrir sig. Hann flutti síðan fyrirtækið norður á Akureyri en ég varð eftir í Reykjavík og stofnaði þá mitt eigið fyrirtæki, Arnarfrakt, fyrir rúmum tveimur árum. Ég keypti þá 8 ára gamlan Scania bíl sem ég byrjaði að keyra á áður en ég fékk nýja bílinn afhentan í fyrravor. Það er nóg að gera í akstrinum.

Það er mikil veiði og mikill fiskur og því nóg að gera í fiskflutningum landshorna á milli. Á góðum dögum er þetta besta vinna í heimi. Ég hef mikinn áhuga á ferðalögum og finnst gaman að keyra um landið okkar. En þegar allir vinir mínir eru farnir í helgarfrí síðdegis á föstudegi og ég staddur einhvers staðar að keyra úti á landi þá verður maður stundum pínu þreyttur.

Það getur líka reynt mjög á að keyra um landið að vetri til þegar allra veðra er von. Ég hef lent í ýmsum hremmingum og maður þarf að vera viðbúinn öllu. Ég hef lent í því að tefjast mjög í vondum veðrum. Þá er gott að vera í vel útbúnum bíl með góðu sjónvarpi, rúmi og ísskáp. Ég tel mig heppinn. Það er mjög mikil umferðaraukning á Íslandi og það er það sem ég mest hræddur um. Ferðamenn eru óvanir íslenskum aðstæðum og vegirnir mættu að sama skapi vera betri. Mér finnst líka að það þurfi að bæta vegþjónustuna, sérstaklega að vetri til. Láta vita betur hvernig aðstæður eru framundan. Stundum er maður að brjóta sér leið í gegnum snjóskafla uppi á heiðum landsins.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.