*

Hitt og þetta 23. nóvember 2004

Fjármálaráðherra ræsir rafræn viðskipti

Geir H. Haarde fjármálaráðherra sendi fyrstu rafrænu pöntunina úr nýjum Oracle-fjárhags- og mannauðskerfum ríkisins. Pöntunin var send frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi til Lyfjadreifingar ehf. gegnum Rafrænt markaðstorg, sem rekið er samkvæmt samningi við fjármálaráðuneytið.

Það er Skýrr hf. sem er umboðs- og þjónustuaðili Oracle-viðskiptalausna á Íslandi og hefur séð um innleiðingu lausnanna hjá hinu opinbera.

Með tengingu Oracle-viðskiptalausna hins opinbera og markaðstorgsins hefur verið komið á samskiptum milli tveggja stórra verkefna á vegum ríkisins á sviði rafrænna viðskipta. Tengingin auðveldar ríkinu að ná yfirlýstum markmiðum sínum hvað snertir hagræðingu í innkaupum og skipar Íslandi ótvírætt í hóp forystuþjóða hvað varðar rafvæðingu opinberra innkaupa segir í tilkynningu frá Skýrr.

Landspítali-háskólasjúkrahús (LSH) hefur frá upphafi verið í fararbroddi við innleiðingu á Oracle-viðskiptalausnum hjá hinu opinbera, en þetta er umfangsmesta upplýsingatækniverkefni Íslandssögunnar.

LSH er jafnframt stærsti einstaki innkaupaaðili ríkisins og hefur mótað sérstaka innkaupastefnu þar sem rafvæðing innkaupa með notkun Oracle og Rafræns markaðstorgs skipar mikilvægan sess. Það var því við hæfi að LSH ryddi brautina varðandi þessa samtengingu fjárhagskerfanna og markaðstorgsins.

Oracle Corp. er annað stærsta hugbúnaðarfyrirtæki veraldar og yfir 90 prósent af 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna eru viðskiptavinir fyrirtækisins. Fyrirtæki sem hafa innleitt Oracle-viðskiptalausnir eru um þrettán þúsund talsins og þar á meðal eru íslenska ríkið, Reykjavíkurborg og Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.