*

Bílar 3. febrúar 2015

Fjögurra dyra coupé

Mercedes-Benz CLA er fjögurra dyra sportlegur bíll hannaður sem coupé.

Róbert Róbertsson

Hönnunin á CLA er sportleg og lagleg að innan sem utan. Bíllinn sækir svip sinn nokkuð til CLS-Class og er ekki leiðum að líkjast. Kraftmikið grillið að framan gefur góð fyrirheit. Straumlínulagaðar hliðar bílsins og tvær skarpar brotalínur í hliðum gefa bílnum sportlegt yfirbragð ásamt bogmyndaðri þaklínunni. Afturhluti bílsins er einnig mikið fyrir augað. Hliðargluggarnir eru litlir og rammalausir sem bætir enn í sportlega ímynd bílsins.

CLA er mjög líkur A-línunni í innanrýminu. Þar er um að ræða sömu innréttingar, stóru loftinntökin og skjáinn fyrir miðju mælaborðinu sem er svolítið eins og spjaldtölva í útliti. Sætin eru sportleg og þau sömu og í A-Class. Mikið er lagt upp úr vönduðu efnisvali í innréttingunni eins og Mercedes-Benz er þekkt fyrir.

Kraftmikil en eyðslugrönn dísilvél

CLA var reynsluekið í 220 CDI gerð, með 2,1 lítra dísilvél sem er prýðilega kraftmikil en það heyrist dálítið í henni eins og oft vill verða með dísilvélar. Bíllinn skilar 170 hestöflum og togið er alls 350 Nm sem er feikilega gott. Eins og lesa má úr þessum tölum er þetta enginn letingi.

Uppgefin eyðsla er allt niður í 4,2 lítra á hundraðið en hún var líklega tæplega 7 lítrar í reynsluakstrinum enda talsvert tekið á bílnum. Bíllinn uppfyllir Euro 5 mengunarflokkinn og losar ekki nema 109 gr/ km af koltvísýringi. Því er ókeypis að leggja honum í bílastæði í borginni sem getur komið sér afar vel. Þetta er fín útkoma fyrir svo kraftmikinn bíl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.