*

Sport & peningar 10. ágúst 2011

Fjöldi manns tók vel á móti Annie Mist

Stefnir að því að sigra heimsleikana í Crossfit tvisvar – fékk fulla körfu að dökku súkkulaði frá Nóa Siríus

Fjöldi manns tók á móti Annie Mist Þórisdóttur, heimsmeistara í Crossfit, við hátíðlega athöfn í Boot Camp í dag.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um sigraði Annie Mist einstaklingskeppni kvenna og fékk um leið titillinn hraustasta kona heims. Sigurlaunin voru litlir 250 þúsund Bandaríkjadalir.

Annie Mist kom til landsins í gærkvöldi eftir að hafa sigrað á heimsleikunum um verslunarmannahelgina. Síðan þá hefur hún haldið til í Bandaríkjunum og í Danmörku.

Fjöldi manns tók á móti Annie Mist í dag.
Fjöldi manns tók á móti Annie Mist í dag.

Arnaldur Birgir Konráðsson, framkvæmdastjóri Boot Camp sagði Annie Mist fyrirmynd annarra íþróttamanna. Árangur hennar á heimsleikunum kæmi til vegna aga, strangra æfinga, einbeitni og mikils baráttuvilja. Hann sagði alla sem til þekkja vera stolta af Annie Mist.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun júlí gerði Annie Mist nýlega styrktar- og auglýsingasamning við bandaríska íþróttavöruframleiðandann Reebok. Þá rekur Annie Mist sína eigin Crossfit æfingastöð, Crossfit BC, ásamt Elvar Þór Karlssyni í húsnæði Boot Camp.

Gera má ráð fyrir að fjölmargir aðilar, þá helst erlendir, sem sýnt hafa Crossfit íþróttinni aukinn áhuga sl. ár reyni að fá Annie Mist í lið með sér líkt og Reebok hefur gert. Aðspurð segist hún þó engar ákvarðanir hafa tekið hvað þau mál varðar. Hún segist ætla að einbeita sér að eigin þjálfun og rekstri Crossfit BC. Þá hefur hún áður lýst því yfir að markmið hennar sé að sigra heimsleikana í Crossfit tvisvar, eitthvað sem engum hefur tekist hingað til.

Annie Mist fékk afhenta fulla körfu að dökku súkkulaði.

Eftir að hópurinn hafði fagnað komu Annie Mistar færði Arnaldur Birgir henni körfu frá Nóa Siríus fulla af dökku súkkulaði, en Annie Mist sagði í samtali við MBL sjónvarp fyrir stuttu að það væri hennar uppáhalds sælgæti.

„Ef einhver íþróttamaður á skilið fulla körfu af súkkulaði þá er það Annie Mist,“ sagði Arnaldur Birgir við hópinn.