*

Sport & peningar 9. júní 2019

Fjölgar í ferðaflóru golfara

Golfiðkendur á Íslandi hafa lengi nýtt velli ytra til að lengja golftímabil sitt ár hvert.

Um árabil hafa íslenskir golfarar lagt land undir fót með settin í farteskinu. Markmiðið hefur verið að lengja í golftímabilinu enda sumarið hér á landi stutt. Áfangastaðirnir eru flestir kunnuglegir, Spánn, Bandaríkin og Bretlandseyjar. En nýverið hafa nýir staðir bæst í flóruna sem Íslendingum standa til boða.

„Þetta er svæði með 27 holum og tveimur hótelum, öðru fimm stjörnu og hinu fjögurra, allt á sama reitnum,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson, framkvæmdastjóri og eigandi GB Ferða, um Castelfalfi í Toskanahéraði á Ítalíu.

Þegar fólk er spurt um það kemur upp í hugann þegar Ítalía er nefnd á nafn er vín, pasta, pítstur, menning og listir meðal þess sem er fyrst sett á blað. Golf hefur aftur á móti ekki verið svo ofarlega á lista.

„Það hefur verið gríðarleg sprenging í golfíþróttinni á Ítalíu. Það eru allir að leggjast á eitt í uppbyggingu á golfi, bæði ríkisstjórnin og golfsambandið,“ segir Jóhann Pétur.

Eftir þrjú ár verður hinn rómaði Ryder-bikar haldinn á evrópskri grund, nánar til tekið á Marco Simone-vellinum skammt frá Róm. Þá hefur framganga Molinari-bræðranna, Francesco og Edoardo, vakið mikla athygli en sá síðarnefndi vann meðal annars Opna breska meistaramótið í fyrra og keppti fyrir hönd Evrópu í Ryder-bikarnum í þrígang, 2010, 2012 og 2018. Öll skiptin var hann í sigurliði.

„Á landareigninni við Castelfalfi er gömul kastalaborg sem búið er að taka í gegn. Þar er að finna verslanir, fína veitingastaði, flott spa auk ólífuog vínræktar,“ segir Jóhann Pétur.

Blanda saman golfi og menningu

Það er hins vegar ekki hið eina. Toskanahérað er þekkt sem hjarta ítölsku endurreisnarinnar og frá vellinum er stutt að fara til margra sögufrægra borga og staða. Þar nægir að nefna borgir á borð við Flórens, Písa og Síena.

„Þau sem hafa farið með okkur hafa mörg hver tekið hring um morguninn og skroppið í borgarferð síðdegis og fram á kvöld. Frá svæðinu er síðan stutt í ýmsa minni bæi sem flestir eru í sinni vínrækt og auðvelt að skreppa og skoða,“ segir Jóhann Pétur.

Sem fyrr segir geymir svæðið 27 holur. Annars vegar er um að ræða 18 holu völl í nokkru fjalllendi og hins vegar níu holu völl, sem unnið er að að stækka í 18 holur, sem er talsvert mildari undir fót. Að sjálfsögðu er þar að finna glæsilegt æfingasvæði.

„Það sem hefur heillað við svæðið er að ekki er aðeins um golf að ræða. Þarna er framúrskarandi aðstaða fyrir golf en stutt í allt annað líka. Margir hafa tekið átta til tíu nætur á Castelfalfi og síðan tvær til fjórar nætur í Flórens og blandað þessu saman,“ segir Jóhann Pétur að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Golf, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Golf