*

Hitt og þetta 29. nóvember 2005

Fjölnotahús í Laugardal

Nýbygging Íþrótta- og sýningarhallarinnar í Laugardal verður formlega tekin í notkun í dag að viðstöddum gestum en Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri opnar húsið formlega.

Með tilkomu nýbyggingarinnar er Laugardalshöllin alls rúmir 16 þúsund fermetrar að flatarmáli og býður eina fullkomnustu aðstöðu á Íslandi fyrir íþróttakeppni og æfingar, sýningahald, ráðstefnur, fundi og mannfagnaði.

Nýbyggingin er björt og rúmgóð, um 9.800 fermetrar. Þar er einn fullkopmnasti frjálsíþróttasalur Evrópu. Hann er einnig ætlaður fyrir sýningar og stærri viðburði og rúmar 7-10 þúsund manns. Funda- og ráðstefnuaðstaða í nýbyggingu Laugardalshallar er fyrsta flokks. Þar er fullkominn ráðstefnusalur með sætum fyrir 80-120 manns og sviði. Þá er stórt rými á annarri hæð, þaðan sem sést inn í eldri íþrótta- og sýningarsalinn, en því má skipta í allt að þrjú minni rými eftir þörfum sem henta fyrir fundi, ráðstefnur og mannfagnaði. Góð bílastæði auðvelda aðkomu gesta.

Framkvæmdir við nýbygginguna hófust í júlí 2003 að loknu alútboði. Aðalverktaki var Eykt ehf., byggingaverktakar. Hönnun var í höndum T.ark teiknistofunnar ehf. og VST verkfræðistofu hf. Heildarkostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna.

Laugardalshöllin er í eigu Íþrótta- og sýningahallarinnar hf. sem einnig sér um rekstur hússins. Að félaginu standa Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins.

Þess má geta að sunnudaginn 4. desember eru 40 ár frá því Laugardalshöll var tekin í notkun en hún hefur verið miðpunktur íþróttaviðburða, sýninga, tónleika og stórfunda auk þess að vera eitt helsta kennileiti Reykjavíkur.