*

Heilsa 14. mars 2013

Fjórar leiðir til að lifa fyrsta leikfimitímann af

Hreyfing getur verið snúin sé formið ekki gott. Hér koma nokkur góð ráð til að lifa fyrsta leikfimitímann af.

Lára Björg Björnsdóttir

Ef þú hefur ekki hreyft þig síðan þú lékst þér í brennó árið 1987 og finnst komið nóg af sleni og slappleika þá hefur þér kannski dottið í hug að fara í leikfimi. En það er hægara sagt en gert að keyra þetta í gang þegar þetta hefur staðið í kyrrt í nokkra áratugi. Viðskiptablaðið mælir með nokkrum góðum ráðum fyrir ykkur sem voruð að byrja að ganga eitthvað lengra en inn í eldhús að sækja meira snakk.

1. Felulitir: Vertu vakandi fyrir umhverfinu og litapallettunni í salnum. Ef salurinn er gulur, vertu í gulu. Ef salurinn er drapplitaður, farðu í drapplitað lak. Hér er lykilatriði að standa ekki út úr og vera ekki áberandi. Þá eru minni líkur á því að vera tekin(n) upp og niðurlægður fyrir framan alla.

2. Slys: Talaðu hátt og snjallt um „slysið“ sem þú lentir í fyrir stuttu og hvað gæti komið fyrir þig ef þú ofreynir þig. Veldu þér til dæmis slys og gúgglaðu hvaða æfingar eru varasamar. Ef þér er illa við armbeygjur vertu þá nýkomin(n) úr gifsi eftir úlnliðsbrot á báðum höndum. Ef þér leiðast hopp vertu þá nýkomin(n) úr hnéígræðslu. Og svo framvegis.

3. Vertu næs: Aflaðu þér vinsælda innan hópsins og ekki stuða neinn. Það er fátt verra fyrir andlegt þrek en hopp og skopp innan um fólk sem þolir þig ekki. Vertu passlega næs en ekki tala of mikið um þig og alls ekki um lífið fyrir utan ræktina. Passaðu þig að drekka ekki meira vatn en aðrir í kringum þig. Það er alltaf vatnsþambskeppni í svona tímum og ekki gott að vinna keppnina í fyrsta tímanum.

4. Vingastu við kennarann: Hér er hrós aðalatriðið. Hrósaðu honum fyrir hvað hann er sólbrúnn, í flottum fötum, með fínt hár og góða húð. Segðu þetta samt ekki fyrir framan allan hópinn (sjá atriði 3 um vinsældir innan hópsins) því þú vilt fyrir alla muni ekki vera sakaður/sökuð um að vera kennarasleikja. Ef þetta tekst vel upp (ekki allir kennarar falla fyrir þessu) þá áttu inni goodwill og hann tryllist síður þegar þú gerir óvart lambaðaspor þegar þú átt að gera krosssporið.

Stikkorð: Heilsa  • Líkamsrækt