*

Bílar 18. mars 2017

Fjórði jeppinn undir merki Range Rover

Jaguar Land Rover frumsýndi Range Rover Velar fyrir almenning á bílasýningunni í Genf sem stendur fram á sunnudag. Þetta er fjórði bíllinn undir nafni Range Rover.

Framleiðandanum Jaguar Land Rover hefur tekist alveg sérstaklega vel upp með stóra Range-ann og Sport-inn. Við fyrstu sýn er Velar einnig ákaflega vel heppnaður í útliti.

Velar er 5 cm styttri en Sport og er í svipuðum stærðarflokki og Porsche Macan, Mercedes-Benz GLC og BMW X6. Bíllinn situr á sama undirvagni og Jaguar F-Pace jeppinn. Að innan er markverðasta breytingin nýr skjár á milli sætanna sem er í mun hærri gæðaflokki en sést hefur í bílum Land Rover hingað til. Í boði verða þrjár dísilvélar og þrjár bensínvélar. Tvær minni dísilvélarnar eru fjögurra sílendra sem skila 178 og 237 hestöflum. Að auki er boði sex sílendra dísilvél sem er 296 hestöfl.

Minnsta bensínvélin skilar 247 hestöflum. Næsta er 296 hestöfl en báðar eru þær fjögurra sílendra. Sú stærsta er 3 lítra V6 sem skilar 375 hestöflum.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkin Tölublöð. 

Stikkorð: Range  • Rover