*

Sport & peningar 16. ágúst 2019

Fjórðungi meiri áheit fyrir maraþonið

Reykjavíkurmaraþonið á laugardaginn eftir viku hefur þegar fengið nærri 10 þúsund skráningar.

Nú þegar rúm vika er í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur þátttakendum þegar fjölgað um 2% miðað við sama tíma í fyrra og áheit 24% hærri. Tölurnar miðast við miðnætti í gærkvöldi svo ljóst er að þátttakan í maraþoninu verður góð í ár en alla jafna fjölgar áheitum og hlaupurum mest síðustu vikuna.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður haldið í 36. sinn laugardaginn 24. ágúst nk. Um 9.660 manns hafa skráð sig til þátttöku. Enn sem komið er hefur Íslendingum fjölgað um 14% á milli ára en erlendum þátttakendum fækkað um 20%.

Þá hefur áheitum á hlaupastyrkur.is fjölgað um 24% frá því á sama tíma í fyrra og um 30% fleiri þátttakendur eru skráðir fyrir góðum málefnum. Góðgerðarfélögum hefur fjölgað um 12% á milli ára.

Hlaupaleiðinni breytt umtalsvert

Hlaupaleið maraþonsins í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið breytt umtalsvert frá hlaupi síðasta árs í því skyni að skapa bæði þátttakendum og áhorfendum betri aðstöðu og auka stemningu við hlaupið.

Hin nýja leið er fjölbreyttari en sú gamla og verður hlaupinn hringur í stað þess að hlauparar fari sömu leiðina tvisvar í sömu átt. Breytingin felur einnig í sér að leiðin liggur nú í meira mæli í gegnum íbúagötur heldur en fyrri ár.

„Reykjavíkurmaraþonið er hjá mörgum einn stærsti fjölskyldu og hlaupaviðburður ársins og markmið okkar er að allir geti tekið þátt í deginum, stórir sem smáir,“ segir Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka.

„Í gegnum tíðina hafa safnast 820 milljónir króna til góðra mála sem hefur skipt sköpum fyrir góðgerðarfélögin enda er þetta stærsta góðgerðarsöfnun landsins. Gott veður í sumar hefur haft jákvæð áhrif á landsmenn þar sem fleiri eru komnir í hlaupaskóna og hafa skráð sig til þátttöku sem er mjög ánægjulegt.“