*

Hitt og þetta 8. febrúar 2019

Flak Hiei fundið eftir 76 ár

Japanska orrustuskipið Hiei hefur legið á hafsbotni síðan í nóvember 1942, en nú hefur það loks fundist.

Júlíus Þór Halldórsson

Flak japanska orrustuskipsins Hiei, fyrsta japanska orrustuskipsins sem sökkt var í seinni heimsstyrjöldinni í nóvember 1942, hefur fundist undan ströndum Solomon-eyja í Kyrrahafi. Bandaríski tæknifréttamiðillinn GeekWire greinir frá.

Leiðangur á vegum meðstofnanda Microsoft, Paul Allen, sem sjálfur lést í október síðastliðnum, fann skipið, en Allen - sem hafði mikinn áhuga á sögu sjóhernaðar - fjármagnaði fjölmarga slíka leiðangra.

Japanskir rannsakendur höfðu staðsett skipið með sónar fyrir um ári síðan, sem varð kveikjan að því að rannsóknarskip teymisins, RV Petrel, fór á staðinn og kannaði málið, en skipið er búið köfunarvélmennum með hágæða myndavélabúnað.

Hafa uppgötvað fjölda skipsflaka
Leiðangrar á vegum Allen hafa uppgötvað fjöldan allan af herskipum úr seinni heimsstyrjöldinni. Meðal þeirra má nefna japönsku orrustuskipin Fusō, Yamashiro og Musashi (stærsta orrustuskip allra tíma) og bandarísku beitiskipin USS Astoria, Vincennes og Indianapolis - sem flutti hluta úr „Little boy", kjarnorkusprengjunni sem varpað var á Hiroshima, á áfangastað - auk flugmóðurskipsins USS Lexington.

Hiei var 36 þúsund tonn að stærð og búið átta 14 þumlunga (356mm) fallbyssum, auk mýmargra minni byssa. Skipið var vígt árið 1914 og var annað af fjórum skipum af Kongō-línunni, hannað af breska sérfræðingnum George Thurston sem orrustubeitiskip, en smíðað í Japan.

Úr orrustubeitiskipi í orrustuskip
Orrustubeitiskip voru jafn stór og státuðu af jafn stórum og öflugum fallbyssum og orrustuskip, en fórnuðu brynvörn fyrir hraða, og þeim var því ekki ætlað að standa í hárinu á öðrum stórskipum eins og orrustuskipum, heldur nýta hraðamismuninn til að forðast slík átök og elta þess í stað uppi beitiskip og önnur minni skip. 

Árið 1937 var skipið gert upp og brynvörn þess aukin, og það endurflokkað sem orrustuskip. Brynvörnin var þó einungis átta þumlungar að þykkt eftir framkvæmdirnar, sem var heldur lítið á mælikvarða orrustuskipa seinni heimsstyrjaldar.

Hæfðu stýribúnaðinn og létu sprengjunum rigna
Hiei sökk eftir sjóorrustu sem kennd er við eyjuna Guadalcanal. Rannsóknarteymi Petrel segir frá því að örlög orrustuskipsins hafi ráðist þegar 8" (203mm) fallbyssur beitiskipsins USS San Francisco hæfðu stýribúnað þess og gerðu hann óvirkan. Næsta sólarhringinn varð skipið fyrir linnulausum loftárásum bandarískra herflugvéla sem létu rigna yfir það sprengjum og skutu að því tundurskeytum. 188 sjóliðar fórust þegar skipið loks sökk. 

Forstjóri Yamato-safnsins í Japan sagði í samtali við japönsku sjónvarpsstöðina NHK að svo virtist sem um þriðjung vantaði á bol skipsins, en myndirnar gefa til kynna að skotfæri um borð í skipinu hafi sprungið, og það sokkið í kjölfarið.

„Uppgötvunin varpar ljósi á þann mikla harmleik sem stríðið var, og ég tel hana til þess fallna að minna fólk á að stríðið er ekki bara saga, það var raunverulegt," er haft eftir safnstjóranum.