*

Ferðalög & útivist 8. febrúar 2019

Flaug 240 þúsund kílómetra í fyrra

Hinn umdeildi forstjóri Tesla og milljarðamæringur, Elon Musk, flaug sem samsvarar 6 ferðum umhverfis jörðina í fyrra.

Júlíus Þór Halldórsson

Framkvæmdastjóri og stofnandi rafbílaframleiðandans Tesla, Elon Musk, flaug yfir 240 þúsund kílómetra á síðasta ári, sem jafngildir yfir 6 ferðum umhverfis jörðina. Þetta kemur fram í frétt Washington Post, sem segist hafa skrá yfir flugferðir einkaþotu Musk undir höndum.

Bróðurpartur flugferðanna var greiddur af Tesla, en forstjórinn skráði yfir 250 flug á fyrirtækið, sem tapaði að hans sögn upp undir 100 milljónum dollara, um 12 milljörðum króna, á viku.

Musk hefur sagt að árið hafi verið „það erfiðasta og sársaukafyllsta“ á ævi sinni. Í frétt WP segir að tíðar flugferðir Musk hafi átt lykilþátt í að gera uppfinningamanninn og milljarðamæringinn að þeirri alþjóðlegu stórstjörnu sem hann er í dag, með því að sýna hvað hann gæti haldið mörgum boltum á lofti samtímis: bílaframleiðslu í Kaliforníufylki, rafhlöðum í Nevada, göngum í Illinois og eldflaugum í Florida.

Göngin eru vísun í fyrirtæki sem hann stofnaði – að eigin sögn hálfpartinn að gamni – sem ber nafnið The Boring Company, og hefur það að markmiði að umbylta samgöngum með því að færa bílaumferð neðanjarðar.

Enn sem komið er hefur því orðið lítið ágengt í gangnagerðinni – sem Musk kennir tregðu yfirvalda í Los Angeles um – en fyrirtækið hefur hinsvegar framleitt og selt nokkrar vörur með miklum árangri. Má þar helst nefna „ekki-eldvörpuna“, sem var upphaflega einfaldlega kölluð eldvarpa, en Musk breytti nafninu þegar þingmenn fóru að íhuga bann við sölu hennar, og tollyfirvöld gáfu út að þau myndu aldrei hleypa vöru sem bæri það heiti í gegn.

Eldflaugarnar í Florida vísa – eins og margir eflaust vita – í geimferðarfyrirtæki Musk, SpaceX, sem hefur nú þegar náð töluverðum árangri á sínu sviði, og er metið á um það bil 30 milljarða dollara, um 3.600 milljarða króna.