*

Tölvur & tækni 9. október 2012

Fleiri rápa um netið í símanum

Tæplega helmingur netnotenda rápa um með fartölvu, farsíma, snjallsíma eða öðrum þráðlausum smátækjum á borð við spjaldtölvu.

Netráp í gegnum farsíma og snjallsíma hefur aukist mikið á milli ára. Í fyrra tengdust 26% netnotenda með þessum hætti í gegnum símana. Á þessu ári tengjast hins vegar 44% netnotenda með farsíma eða snjallsíma. Þá tengjast um 20% netinu með spjaldtölvu með snertiskjá.

Fram kemur í upplýsingum Hagstofunnar um tölvu- og netnotkun einstaklinga, að alls hafi 47% netnotenda tengst netinu utan heimilis og vinnu með einhverju af umræddum tækjum: fartölvu, farsíma, snjallsíma eða öðrum þráðlausum smátækjum.

Þá var dagleg tenging við net algengara á farsímum og snjallsímum en á fartölvum, 45% í tilfelli notenda snjallsíma og farsíma, en 30% í tilfelli notenda fartölva.

Þá kemur fram í umfjöllun Hagstofunnar um málið að 86% þeirra sem tengjast neti með farsíma eða snjallsíma nota til þess háhraða farsímatengingu, 67% þráðlaust staðarnet og 7% annars konar farsímatengingu. 

Hvað tiltekna netnotkun á þráðlausum tækjum (að fartölvum og spjaldtölvum undanskildum) er algengast að fólk noti samskiptasíður, tölvupóst og lesi fréttir af vefnum eða 67–69% notenda. Afgangurinn, 39% nota tækin fyrir leiki, myndir, myndbönd eða tónlist en rúm rúm 11% til að lesa bækur og tæp 8% hafa notað hlaðvarps/podcast þjónustu.