*

Sport & peningar 11. maí 2012

Flikk, flakk og heljarstökk

Ljósmyndari Viðskiptablaðsins heimsótti fimleikaæfingu hjá hópi kattliðugra karla. Sá elsti nálgast áttrætt og lætur ekki á sjá.

Líkamsrækt þarf ekki endilega að fela í sér ferð í tækjasal eða útihlaup. Í nokkra áratugi hefur hópur fimleikamanna komið saman tvö kvöld í viku í íþróttasal fimleikadeildar Ármanns. Þeir eru þó ekki á tvítugsaldri eins og flestum kynni að detta í hug heldur flestir komnir vel yfir fimmtugt, sá elsti nálgast áttrætt.

Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Viðskipablaðsins, leit við á æfingu hjá köppunum í síðustu viku.

Viðskiptablaðið ræddi við Jónas Tryggvason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Actavis og nú sjálfstætt starfandi ráðgjafa, sem æfir með fimleikahópnum. Jónas bendir að að fimleikar séu fyrir alla og séu góð alhliða þjálfun. "Þetta er allur skrokkurinn, vöðvar sem fólk vissi ekki að það hafði. Fólk fær harðsperrur á milli herðablaðanna og ólíklegustu staðir fara að segja til sín. Þetta er það allrabesta."

Jónas segir félagana njóta mikilla vinsælda og aðdáunar í fimleikasalnum sem ætíð iðar af ungu upprennandi fimleikafólki. Hann segir að gjarnan megi heyra 7-8 ára fimleikastúlkur segja með aðdáunarrómi, "ohh, sjáið þið karlana, þeir eru svo miklar dúllur."

Hér má sjá Birgi Guðjónsson, einn elsta meðlim hópsins, sem hikar ekki við skella sér í flikk. 

Hér sýnir Jónas listir sínir í hringjunum. 

Upphitunin er alltaf löng og góð og þeir félagar leggja mikla áherslu á teygjur. 

 

Óttari Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga, er margt til lista lagt. Hér gerir hann flikk. 

Fullorðinsfimleikar hafa notið sívaxandi vinsæla og eru iðkendur nú, samkvæmt óformlegri könnun Viðskiptablaðsins, hátt í 200 í þremur íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Fremst til vinstri má sjá Ólaf Þórarinsson, sem einnig er þekktur sem Labbi í Mánum, teygja sig til himins. 

Það eru ekki allir sem geta leikið þetta eftir. 

Handstaðan er undirstaða flestra æfinga í fimleikum og æfa þeir félagar hana að sjálfsögðu vel. 

 

Áður en ljósmyndari kvaddi félagana kampakátu brugðu þeir á leik í hópmyndatöku.

Efri röð frá vinstri: Jónas Tryggvason, Benedikt Hjartarson, Ólafur Þórarinsson, Bragi Magnússon, Óttar Guðjónsson. Fremri röð frá vinstri: Eiríkur Ingi Jóhannson, Birgir Guðjónsson, Þórir Kjartansson, Ófeigur Gerimundsson, Hermann Ísebarn. 

Nánar er fjallað um hópinn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan

Stikkorð: Fimleikar