*

Matur og vín 30. október 2017

Fljótleg kjúklingasúpa

Á heimasíðunni www.gottimatinn.is er fjöldi matarbloggara samankominn.

Á heimasíðunni má því finna fjölbreyttan og skemmtilegan heimilismat sem og ýmsar uppskriftir að veislumat, kökum og fleiru. Hafdís Priscilla Magnúsdóttir einn bloggaranna deildi nýverið þessari dásamlegu uppskrift að kjúklingasúpu sem er tilvalin í upphafi vikunnar en súpu sem þessa bragðast oft jafn vel ef ekki betur daginn eftir og er því tilvalin í nesti.

Kjúklingasúpa:

1 laukur

1 rauðlaukur

1 rauð paprika

2 hvítlauksgeirar

2 dósir af tómötum

1 msk. karrí

1 kjúklingateningur

3 kjúklingabringur

1 msk. Tabasco sósa

150 g rjómaostur

Pipar og óreganó eftir smekk

Rifinn ostur og sýrður rjómi eftir smekk

 

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu með íslensku smjöri. Kryddið með salti og pipar ásamt chilikryddi eftir smekk.

Skerið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn niður í bita og steikið í potti með olíu og karrí þar til laukurinn er orðinn gylltur og mjúkur.

Bætið við tómötum úr dós.

Látið vatn í tómu dósirnar til að skola þær og hellið vatninu í pottinn og bætið við kjúklingateningi og tabasco sósunni. Kryddið eftir smekk með pipar og óreganó.

Látið malla í 10 mínútur.

Þar sem á mínu heimili er ekki vilji til að borða súpur með grænmetisbitum, þá mauka ég súpuna niður.

Því næst bæti ég við rjómaostinum og kjúklingnum.

Berið fram í skálar og hver og einn bætir við rifnum osti og sýrðum rjóma eftir smekk.

Sjá nánar hér