*

Menning & listir 10. mars 2021

Flo Rida sækir að Daða í Eurovision

Vinningslíkur San Marino hafa aukist til muna eftir að tilkynnt var um þátttöku rapparans Flo Rida.

Vinningslíkur San Marino í Eurovision hafa rokið upp eftir að tilkynnt var um aðkomu bandaríska rapparans Flo Rida að framlagi landsins. Flo Rida hefur ásamt ítölsku söngkonunni Senhit gefið út lagið Adrenalina sem verður framlag landsins í ár, sem telur 34 þúsund manns. Þó er óljóst hvort Flo Rida mun standa á sviðinu í Rotterdam í maí.

Í umfjöllun OddsChecker kemur fram að 41% af öllum sem veðjuðu á sigurvegara í Eurovision frá því að lagið var gefið út á sunnudaginn hafa talið að San Marino myndi fara með sigur af hólmi í keppninni. 

Eftir að greint var frá þátttöku Flo Rida jukust sigurlíkur San Marino í veðbönkum úr 0,3% í 6,7%

Samkvæmt vef Eurovisionworld þykja Daði og Gagnamagnið þó enn líklegust hjá veðbönkum að fara með sigur af hólmi í keppninni sem fer fram dagana 18. til 22. maí. Eins og Íslendingar muna vel þótti Daði einnig líklegastur til að sigra Eurovision á síðasta ári þegar keppnin var blásin af vegna heimsfaraldursins. Daði og Gagnamagnið munu frumflytja framlag Íslands þann 13. mars.