*

Tíska og hönnun 10. júní 2020

Framkvæmdagleði, skjáhausar og tískuheimili

Á tímum kórónuveirufaraldursins breytist neysluhegðun sem flokka má í þrjá skýrt afmarkaða nýja hópa.

Lífstílstímaritið Quartz fjallar um þrjá hópa neytenda sem komið hafi skýrt í ljós með breyttri neysluhegðun í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 og takmörkununum sem því hefur fylgt. Virðist sem hægt sé að greina þrjá skýrt afmarkaða hópa neytenda, það er þá sem einblína á heimilisverkin, þá sem sitja límdir við skjáina og loks þá sem bæta sjálfan sig á alla kanta.

Tískuheimilið á sléttunni

Þannig hafi aukin heimaseta leitt til þess að sumir hafi dyttað að heimilum sínum í auknum mæli, svokallaðir „Hipsteader“, sem standi fyrir „Hip homesteader“ sem á íslensku mætti útleggja sem tískuheimagerðarfólkið. Þessi hópur er sagður reyna að sýna umheiminum eins konar Húsið á sléttunni ímynd af eigin heimili, með ræktun kryddjurta og bökun brauða frá grunni.

Þennan hóp hafi helst mátt finna fyrir tíma kórónuveirunnar á bænda og hannyrðamörkuðum eða dýrari verslunum, en í dag séu þeir helst sýnilegir þegar þeir pósti á samfélagsmiðla myndum af brauði, handgerðum grímum eða fagna blómgun garða sinna sigri hrósandi eða ræða um hvernig best sé að súrsa grænmeti.

Þennan aukna áhuga á endurhvarfi til fyrri tíðar megi meðal annars merkja í því að mikil aukning hefur verið í sölu á fræjum ýmis konar, þá til matjurtaræktunar, en einnig til kannabisræktunar. Einnig hafi salan á plastinniskónum Crocs aukist töluvert á árinu.

Skjáhausarnir sem breyta litlu

Annar hópur sem tímaritið greinir sé „The Screenhead“ eða skjáhausinn, sem áður hafi helst mátt finna í bíóum, íþróttaviðburðum, tónleikahöllum eða heima við að spila tölvuleiki og horfa á Netflix eða aðrar streymisveitur.

Í dag megi helst finna þennan hóp einmitt mjög virkan á samskiptaforritunum Zoom, TikTok, Twitter og horfandi á Amazon Prime og aðrar streymisveitur, bara meira en áður. Þannig hafi líf þessa hóps kannski breyst minna, því þeir séu vanastir því að hafa ofan af fyrir sér með sjónvörpum, tölvum, spjaldtölvum og símum.

Þennan hóp má merkja af því að Netflix áskrifendum hafi fjölgað um 16 milljónir á fyrstu mánuðum ársins, og í apríllok hafi aukningin á notkun streymisveitna aukist um 40%. Hækkun bréfa Zoom hafi svo verið sú næstmesta á árinu en eina félagið sem hafi hækkað meira hafi verið líftæknifélagið Moderna sem sé að þróa bóluefni gegn Covid 19.

Amazon sá einnig mikla aukningu í notkun Amazon Prime áskrifenda í því að kaupa meira og oftar, en jafnframt hafi verið tvöföldun nýrra áskrifenda í mars miðað við fyrra ár.

Yfirgengilega árangursríkir

Loks er þriðji hópurinn „The overachiever“ eða sá yfirgengilega árangursríki, en viðkomandi hafi áður verið duglegastur að mæta í ræktina, í skólann eða byggingavöruverslanir en horfi nú á leiðbeiningar á Youtube og Ted um hvernig gera eigi ýmis konar hluti og eða nýta sér áskriftina að MasterClass.

Í dag séu þeir að nýta tímann til að bæta sig og eigið líf, byggja fuglahús, ná maganum í þvottabrettisform, lita á sér hárið, eða setja á sig maskara, og eða kenna börnum sínum að forrita.

Greiðslukerfið Square segir að aukning í kaupum á fegrunarvörum til heimabrúks hafi numið 186% milli ára í endann mars og byrjun apríl, áskrift af kennslumyndböndum Khan Academy hafi aukist um 250%, sem og um sjöföldun hafi verið í áhorfi á flokka youtube myndbanda sem kenna ýmis konar eldamennsku og verkvit.

Æfingahjólaframleiðandinn Peleton er sagður sá sem hafi helst grætt á þessum hópi, og hann hafi nú ekki undan eftirspurninni eftir nýjum hjólum. Einn stofnanda JetSweat sem bjóði áskrifendum æfingamyndbönd segir eftirspurnina hafa verið „brjálaða“, og á Youtube hafi áhorf á jóga myndbönd með Adriene nærri þrefaldast milli ára, og áhorfið numið 29 milljón skiptum í mars.

Stikkorð: Amazon  • Square  • tíska  • Netflix  • Youtube  • Crocs  • heimili  • Ted  • TikTok  • Masterclass  • Khan Academy  • Peleton  • Zoom  • Covid