*

Matur og vín 5. janúar 2013

Flor de las Antillas Toro er vindill ársins 2012

Hið virta vindlatímarit Cigar Aficionado hefur valið 10 bestu vindla síðasta árs. Sigurvegarinn flúði Kúbu í leit að frelsi og tækifærum.

Gísli Freyr Valdórsson

Bandaríska vindlatímaritið Cigar Aficionado hefur valið Flor de las Antillas Toro vindil ársins árið 2012. Tímaritið velur um hver áramót tíu bestu vindlana að mati dómnefndar en í fyrra valdið tímaritið Alec Bradley Prensado Churchill frá Hondúras vindil ársins.

Toro vindillinn á, eins og svo margir aðrir góðir vindlar, rætur sínar að rekja til Kúbu þó hann sé framleiddur í Nicaragua. Framleiðandi vindlanna, José Garcia, byrjaði að vefja vindla aðeins 11 ára gamall í heimabæ Baez á Kúbu og var fljótlega þekktur sem vandvirkur og efnilegur vindlaframleiðandi. 

Eins og svo margir aðrir íbúar Kúbu hafði Garcia þó mikla þrá fyrir frelsi og auknum tækifærum þannig að fjölskylda hans flúði landið, eitt í einu, og kom sér fyrir á Miami á Flórída þar sem þau hófu vindlaframleiðslu með tóbakslaufum frá Nicaragua. 

Toto vindillinn var fyrst kynntur vorið 2012. Hann er nokkurn vegin kassalaga í lögun, um sex tommu langur. Og vindillinn er að sögn góður frá fyrsta reyk, með bragði blönduðu að ristuðum hnetum, hvítum pipar og hann er nægilega sterkur án þess að vera yfirhylmandi sterkur. Vindillinn hlaut 96 stig af 100 mögulegum hjá dómnefnd tímaritsins.

Í öðru sæti var sérstök útgáfa af hinum geysivinsælu Cohiba vindlum, Cohiba 1966 Edición Limitada 2011. Það ekki oft sem El Laguito verksmiðjan, framleiðandi Cohiba vindlanna, gefur út sérstakar útgáfur af vindlinum en framleiðandinn gerði þó eina týpu í fyrra og kallaði vindilinn 1966. Vindillinn, sem er um 6,5 tomma að lengd, er vafinn í örlítið dekkri lauf en aðrir Cohiba vindla. Bragð vindilsins einkennist af fersku en sterku kaffi auk einkennis rjóma, leðurs og súkkulaðis.

Topp tíu listi yfir bestu vindlana að mati Cigar Aficionado lítur svona út:

  1. Flor de las Antillas Toro (frá Nicaragua)
  2. Cohiba 1966 Edición Limitada (frá Kúbu)
  3. Romeo by Romeo y Julieta Piramide (frá Dóminíska lýðveldinu)
  4. Padrón Family Reserve Natural (frá Nicaragua)
  5. Arturo Fuente Rosado Sungrown Magnum R Vitola Forty-Four (frá Dóminíska lýðveldinu)
  6. H. Upmann Royal Robusto  (frá Kúbu)
  7. Ashton Heritage Puro Sol Belicoso No. 2 (frá Dóminíska lýðveldinu)
  8. Rocky Patel Fifty Robusto (frá Nicaragua)
  9. Tatuaje Cojonu 2012 Sumatra (frá Nicaragua)
  10. Nat Sherman Timeless Collection No. 2 (frá Hondúras og Dóminíska lýðveldinu)

Cohiba 1966 Edición Limitada 2011 var næst besti vindill ársins 2012

Stikkorð: Vindlar