*

Bílar 10. febrúar 2018

Flottur ferðafélagi

Ný kynslóð af hinum vinsæla sportjeppa BMW X3 var kynnt á dögunum.

Róbert Róbertsson

BMW hefur selt meira en 5,5 milljónir X-sportjeppa síðan þeir voru fyrst kynntir árið 1999. Þriðji hver bíll sem BMW selur í dag er X og fer salan vaxandi á öllum mörkuðum samkvæmt Harald Kruger, stjórnarformanni BMW, en hann upplýsti um þetta á blaðamannafundi í Munchen í desember sl.

BMW er ekki þekkt fyrir að gera róttækar breytingar á bílum sínum á milli kynslóða. Það eru engar byltingarkenndar breytingar á X3 en þó má sjá ýmsar útlitsbreytingar til að skerpa á nýjungunum og sportlegum eiginleikum bílsins. Nýrnalaga framgrillið, sem er einkennismerki BMW, hefur verið stækkað auk þess sem lóðréttir rimlar þess gegna enn virkara hlutverki við stjórnun loftflæðis. Bíllinn hefur fengið stærri framluktir með LED ásamt því sem sambyggður stuðari og svunta með innbyggðu þokuljósunum hafa tekið ferskum breytingum sem skerpa á afgerandi línunum. Að aftan er helsta breyting sú að komin eru ný afturljós og nú eru allra útfærslur bílsins með tvöfalt púst auk fleiri atriða.

55 kg léttari en forverinn

Við smíði nýja bílsins hefur BMW aukið notkun áls og koltrefja í undir- og yfirbyggingu auk notkunar annarra efna í innréttingu sem gera að verkum að nýr X3 er 55 kg léttari en forverinn. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar útliti bílsins, m.a. til að minnka loftmótstöðu. Innanrýmið er klassískt og flott og ekta BMW. Rúmlega 10 tommu litaskjár er áberandi í mælaborðinu. Flott stemmningslýsing er í boði og þar er hægt að breyta litum að eigin vali. Þetta er smart sérstaklega þegar skyggja tekur. Frágangur er allur mjög vandaður. Í farþegarýmið eru komin ný efni í innréttingu, geymslupláss í miðjustokki hefur verið aukið og komið er nýtt leðurklætt fjölaðgerðastýri. Reynsluakstursbíllinn var með mjög góðum leðursætum og vel búinn fyrir þægindi.

Eingöngu í xDrive útgáfu

Nýr BMW X3 kemur eingöngu í xDrive-útgáfu þ.e. með fjórhjóladrifi. Velja má um tvær dísilvélar með forþjöppu sem báðar eru búnar 8 gíra Steptronic-sjálfskiptingu BMW. Reynsluakstursbíllinn var með uppfærðri tveggja lítra, fjögurra strokka dísilvél. Hún skilar 190 hestöflum og togið er 400 Nm. Þetta er mjög góður akstursbíll eins og vænta má frá BMW. Hann er mjög þéttur og stýringin afar góð. Bíllinn er 8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 213 km/klst.  Eyðslan er frá 5 lítrum miðað við blandaðan akstur. CO2 útblásturinn er frá 132 g/km sem hvort tveggja verður að teljast mjög gott.Eins og áður segir er nýr X3 með xDrive fjórhjóladrifinu og það finnst vel og gerir aksturseiginleikana enn betri. Auk þessarar 190 hestafla vélar er einnig hægt að velja um nýja þriggja lítra, sex strokka, 265 hestafla dísilvél.

Fínn staðalbúnaður

Eins og áður er grunngerð X3 búin ríkulegum staðalbúnaði. BMW hefur þó aukið við staðalbúnað nýja bílsins, svo sem með 18” álfelgum, rafdrifnum afturhlera, nálgunarvara, bakkmyndavél og sjálfvirkri stæðalögn. BMW hefur með nýju kynslóð sportjeppans aukið staðalbúnað, litaúrval og aðra kosti við samsetningu á útfærslum. Tæknilausnum hefur einnig fjölgað, m.a. hvað varðar aðstoð við akstur sem miða að aukinni sjálfstýringu bílsins. Má þar nefna aðstoð við að leggja í stæði en þá tekur bíllinn völdin og bakkar sér sjálfum í stæði.

Þetta er hentugur bíll fyrir íslenskar aðstæður og tilvalinn í útivistina og ferðalögin.

Bíllinn er vel rúmgóður fyrir fólk og farangur. Þess má geta að lesendur hins þýska bílablaðsins Auto Zeitung völdu nýja X3 sem besta sport- og útvistarbílinn í sínum flokki í könnun blaðsins nú í desember sl. BMW X3 xDrive 20d kostar frá 7.590 þús. króna en reynsluakstursbíllinn var með meiri búnaði og kostar 8.780.000 kr.