*

Bílar 11. september 2013

Fyrsti rafmagnsbíllinn frá BMW frumsýndur ásamt fleirum

Fjarki, X5 og X5 hybrid, i8 og i3 voru frumsýndir á þriðjudag.

BMW frumsýndi nokkra bíla í Frankfurt í gær, þriðjudag. Alla höfum við séð áður á myndum, suma jafnvel á bílasýningum en nú er þeir farnir í framleiðslu og þá sjást þeir loks í lokaútgáfu.

Fjarkinn

BMW frumsýndi í janúar hugmyndaútgáfu af nýjum tveggja dyra þrist á bílasýningunni í Detroit , sem fékk heitið BMW 4. Í gær var svo svo fjarkinn frumsýndur í endanlegri mynd.

Eins og við höfum áður sagt er bíllinn fallegur. Fyrir utan útlitið og betri frágang að innan er helsti munurinn á gamla coupe 3 og nýjan fjarkanum betra pláss að innan. Ekki síst fyrir farþega aftur í.

Hér má sjá myndband af bílnum frá því í janúar.

Nýr X5 jeppi

BMW frumsýndi einnig þriðju kynslóðina af X5 jeppanum sem fer í sýningarsali 16. nóvember. Bíllinn er rökrétt framhald af eldri kynslóð. Hann kemur með tveimur nýjum vélum, annari dísel og hinni stærstu sem er í boði, 4,4 V8 bensínvél sem skilar 449 hestöflum. Báðar menga minna og skila fleiri hestöflum en forverarnir. 

Einnig var hugmyndaútgáfa af hybrid X5 eDrive frumsýnd. Sá bíll er með fjögurra sílendra vél, en BMW hefur ekki gefið upp meiri upplýsingar um vélina, og 95 hestafla rafmagnsmótor. Eyðslan er sögð 3,8 lítrar á hundrað kílómetrum.

i8 rafmagnssportbíllinn

Nú er það orðið ljóst að i8 rafmagnssportbíllinn er farinn í framleiðslu. Hann var fyrst kynntur fyrir fjórum árum í Frankfurt og nefndist um tíma Spyder. BMW segir i8 framtíðarsportbíl.

Hann er fjögurra sæta og kemur með 1,5 lítra bensínvél sem skilar 231 hestafli og knýr afturhjólin áfram. Rafmagnsmótorinn er 131 hestafl og knýr framhjólinn. Bíllinn nær 120 km hraða á klukkustund og getur farið mest 35 km á rafmagninu einu. BMW gefur ekki upp í eyðsluna.

Fyrsti rafmagnsbílllinn frá BMW - i3

i3 er fyrsti rafmagnsbíll bæverska bílaframleiðandans. Mótorinn er 170 hestöfl og fer 130 - 160 km á hleðslunni.

Hægt verður að fá aukalega tveggja strokka vél sem eykur drægnina og verður hún þá 290 kílómetrar. Bíllinn vegur 1,1 tonn.  

Stikkorð: BMW 4  • BMW X5  • Bílasýningin í Frankfurt 2013  • BMWi8  • BMW.  • BMWi3