*

Ferðalög & útivist 12. apríl 2013

Flottustu skemmtiferðaskip í heimi

Í glæsilegustu skemmtiferðaskipunum í dag er pláss fyrir mörg þúsund farþega, bíósali, ísskautahallir og verslunarmiðstöðvar.

Þrátt fyrir óheppileg atvik á síðustu árum er skemmtiskipaiðnaðurinn sá markaður þar sem vöxtur er mestur í ferðamannaiðnaðinum.

Cruisemarketwatch.com spáir því að farþegum skemmtiferðaskipa muni fjölga úr 21 milljón árið 2013 í 23,7 milljónir árið 2017.

Hér koma fimm flottustu skemmtiferðaskip í heiminum í dag að mati CNN.

Allure of the Seas

Stórt er orðið yfir Allure of the Seas. Skipið er það stærsta í heimi, 225.282 tonn og á skipinu er pláss fyrir 6360 farþega. Herbergi og svítur eru á sextán hæðum og skiptast í sjö „hverfi“. Þrátt fyrir að skipið sigli um Karabískahafið þá fara sumir farþegana aldrei frá borði á siglingunni enda er ýmislegt að gera um borð. Um borð er meðal annars ísskautahöll, öldusundlaug, aparólur, klifurveggir, verslunarkjarni, bíó og leikhús. Veitingastaðirnir eru yfir  24 og barirnir líka, þar á meðal fyrsti Starbucks staðurinn í heimi sem er um borð í skipi.

Queen Mary 2

Skipið þykir eitt það glæsilegasta í dag. Á skipinu er pláss fyrir 2620 farþega og 1253 í áhöfn. Á skipinu eru fimm sundlaugar og fimmtán veitingastaðir. Stærri káetunum fylgja einkalíkamsrækt, svalir og einkaþjónn. Spilavíti, tennisvellir, bókasafn, danssalur, bíó og leikhús er meðal þess sem finna má um borð. 

Norwegian Breakaway

Skipið verður það stærsta í heimi þegar það siglir af stað í maí á þessu ári. Listaverk eftir bandaríska listamanninn Peter Max prýðir skipið. Þrjár Broadway sýningar verða í boði svo það er nóg að gera fyrir 4000 farþegana. Á skipinu er sundlaugagarður með stórum vatnsrennibrautum, níu holu golfvöllur, körfuboltavöllur og klifurveggur.

Disney Fantasy (Disney Cruise Line)

Disney skipið er algjörlega einstakt. Móttakan er með þrefaldri loftæð, stórum stiga, flygli, marmaragólfi og kristalsljósakrónu. Veitingastaðir, sem eru aðeins fyrir fullorðna, gefa foreldrum smá breik fyrir Disney æsingnum en skipið býður líka að sjálfsögðu upp á alls konar hressleika fyrir alla fjölskylduna. Leikhús og bíósalir eru um borð. Disney karakterar rölta síðan um skipið og heilsa upp á yngstu farþegana.

Seabourn Odyssey (Seabourn)

Hér er þjónustan í fyrirrúmi. Skipið er kannski ekki það stærsta í heimi en þjónustustigið er þannig að það er einn áhafnarmeðlimur á móti einum farþega. Á skipinu er allt sem hugsast getur þegar kemur að þægindum og huggulegheitum. Þar er spilavíti, heilsulind og nudd í boði við sundlaugarbakkann. Á skipinu eru 225 svítur og þær bestu eru með sólardekki og heitum potti. Gestir stíga á rauðan dregil þegar þeir stíga á land og borða kavíar og drekka kampavín á ströndinni.