*

Ferðalög 29. október 2013

Flottustu svíturnar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum

Lúxushótelin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru mörg og á milli þeirra er gríðarleg samkeppni.

Það fer að verða erfitt að toppa svítur úr gulli, hengdar upp á milli tveggja turna eða neðansjávar en eigendur lúxushótelanna reyna hvað þeir geta.

Skoðum flottustu svíturnar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að mati CNN:

Neðansjávar svítan í Atlantis the Palm, Dubai. Þetta er hótelið sem Kim Kardashian gisti á þegar hún fór til Dubai að komast aðeins í burtu frá þessu öllu þegar hjónaband hennar og Kris Humphries riðaði til falls. Þó það sé erfitt að gera upp á milli herbergja á hótelinu þá slær Neðansjávarsvítan líklega öll met. Svítan er á þremur hæðum og veggirnir eru úr gleri og þar svamla 65 þúsund fiskar og hákarlar um fyrir utan. Svítunni fylgir líka þjónn sem er til taks allan sólarhringinn.

Konunglega svítan í Burj Al Arab, Dubai. Rúmið í konunglegu svítunni á Burj Al Arab hótelinu snýst. Rúmið er aðalatriði í svítunni sem þykir sú skrautlegasta af svítunum og þá er mikið sagt. Gestir geta gengið upp voldugan stiga úr gulli og marmara upp á 25. hæðina en svítan nær yfir alla hæðina. Þar er bíósalur þegar fólk fær leiða á að snúast í hringi í rúminu. Baka til er inngangur fyrir starfsfólk svítunnar sem er þó nokkur fjöldi.

Konunglega svítan á St. Regis Saadiyat Island Resort, Abu Dhabi. Svítan er tæpir 200 fermetrar og ein sú stærsta í heimi. Hún nær yfir tvær hæðir í vesturálmu hótelsins. Litapalletan er merkilega látlaus með gráum tónum. En lúxusinn er samt til staðar eins og hringstigi á milli hæðanna, útisundlaug, bíósalur, spilaherbergi, bar og gufubað.

Hér má lesa nánar um lúxushótelin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.