*

Ferðalög & útivist 10. maí 2013

Flottustu vitahótel í heimi

Draumur ferðalangsins, sem vill frið, hefur ræst. Nú er hægt að bóka gistingu í gömlum vitum. Og útsýnið er stórfenglegt.

CNN hefur tekið saman fimm fallegustu vitana sem búið er að breyta í hótel. En vitar hafa lýst upp hættulegar strendur í gegnum árþúsundin og bjargað lífum sjómanna og öðrum sem hafa þurft að ferðast um höfin.

Í dag eru margir þessara vita sjálfvirkir og því er ekki lengur þörf á vitaverði. En byggingarnar eru fallegar og standa á góðum útsýnisstöðum. Sumir eigendur vitanna hafa tekið upp á því að bjóða fólki gistingu í þessum gömlu og traustu húsum. Og úr hafa orðið alveg gullfalleg hótel.

Fallegustu vitahótelin að mati CNN eru: 

St Anthony's viti í Suðvestur-Englandi. Ef vitinn lítur kunnuglega út þá er það vegna þess að hann er sögusviðið í barnatímanum „Fraggle Rock" eða „Búrabyggð", sem gerði allt vitlaust á níunda áratugnum.

Harlingen viti í Hollandi. Í norðausturátt frá Amsterdam stendur Harlingen viti. Vitinn er í Art deco stíl og í stað ljóskastarans er kominn gluggi með borði fyrir tvo. 

Saugerties viti í New York. Í aðeins 2 klukkutíma fjarlægð frá Manhattan stendur þessi fallegi viti. Hann var byggður 1869 og var gerður upp 1990. 

Cape Otaway vitinn. Vitinn er sá elsti í Ástralíu og var byggður 1848. 

The East Brother vitinn. Vitinn stendur á lítilli eyju tíu mínútum frá San Francisco höfn. Vitinn hefur lýst upp hafið við San Francisco í 130 ár. 

Og ef fólk nennir ekki til útlanda í vitafjörið má alltaf kíkja á Hornbjargsvita. Góða ferð. 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Ástralía  • New York  • Hótel  • Holland  • Lúxus  • Ástralía  • San Francisco  • England  • Vitar