*

Ferðalög 12. maí 2014

Flugu í kringum Jörðina fyrir tæpa hálfa milljón

Pálína Björk Matthíasdóttir og Jónas Haraldsson létu tilboð á farmiðum og ódýr flug ráða ferð sinni umhverfis Jörðina.

Það er vel mögulegt að ferðast hringinn í kringum heiminn á mánuði fyrir tiltölulega lítinn pening og stoppa á nokkrum stöðum. Langi mann til að skoða einhverja áfangastaðir betur er hægt að gera það síðar. Þetta segir Pálína Björk Matthíasdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu. Henni finnst fátt skemmtilegra en að liggja í netinu og leita að ódýrum flugmiðum. Það gerði hún síðla árs 2012.

Ferðina skipulagði hún með unnusta sínum eftir tilboðsflugum sem Pálína fann á ferðaskrifstofum á netinu. Henni telst til að allt flug hafi kostað um 220 þúsund krónur á mann. Ferðin öll hafi verið á um 485 þúsund krónum á mann, tæpa milljón fyrir þau tvö.

Vilja skoða Petru betur

Flogið var héðan til Seattle og þaðan til Havaí, Taílands, Indlands Srí Lanka og Jórdaníu. „Við vorum mjög sveigjanleg, bæði þegar kom að tímasetningum fluga og staða sem við flugum til, annars hefðu við aldrei haft efni á þessu," segir Pálína.

En náðuð þið að upplifa eitthvað á 30 dögum?

„Já, við pikkuðum út ákveðna staði og þótt við stoppuðum stutt þá reyndum við að velja þá vel. Við vildum til dæmis skoða Petru í Jórdaníu, leigðum bílaleigubíl og keyrðum þangað. Við fengum innsýn inn í mismunandi staði. Ef okkur líkar eitthvað mjög vel eða kom okkur á óvart eins og Petra þá ætlum við að skoða þá staði betur seinna,“ segir hún. En aftur að sveigjanleikanum. Pálína segir að þegar hún og unnusti hennar lentu í Chennaí hafi gengið erfiðlega að finna næturgistingu. Það var sosum skiljanlegt, enda voru þau þar 30. desember. „Við vildum ekki vera í borginni og tókum leigubíl út fyrir hana. Við vorum komin í þorp seint um kvöld og fundum hótel sem var ekki í hreinlegasta kantinum. En við létum okkur hafa það og vorum mjög ánægð þegar við komum út daginn eftir,“ segir hún.

Lesa má ítarlega um ferðalag þeirra Pálínu og Jónasar á Tumblr-síðu þeirra um ferðina.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.