*

Hitt og þetta 8. júlí 2013

Flugvélar öruggari en rúllustigar

Líkurnar á því að láta lífið í flugtaki er 0,2 á móti milljón sem gerir flug öruggusta ferðamátann.

Í dag er mun líklegra að farþegar lifi af flugslys vegna þess að vélarnar eru sterkbyggðari og hannaðar til að þola brotlendingar, samkvæmt sérfræðingum í flugöryggi. Þetta kemur fram á vefsíðunni Stuff.co.nz.

Sérfræðingar í flugöryggi taka fram að ástæða þess að svo margir farþegar lifðu af flugslysið í San Francisco í gær þegar flugvél frá flugfélaginu Asiana Airlines brotlenti við lendingu, er vegna þess að hönnun flugvéla í dag er byggð með tilliti til flugslysa. Hjólin ertu til dæmis þannig búin að þau brotna af þegar flugvél brotlendir. Um leið er botn vélanna sterkari til að vernda farþegana.

Kevin Hiatt, forstjóri Flight Safety Foundation, segir að margra ára rannsóknir á öllum tegundum flugslysa og útreikningar á því hvað getur farið úrskeiðis í flugi, hafi hjálpað þeim að hanna mun öruggari flugvélar.

Í rannsókn sem gerð var á flugatvikum frá 1983 til 2000 kom í ljós að 95,7% farþega lifðu af. Í 568 atvikum dóu 2280 farþegar af 53.487.

Rannsakendur í Massachusetts Institute of Technology segja að dánartíðnin sé 0,2 fyrir eitt milljón flugtaka sem gerir flug öruggasta ferðamátann. Að fljúga er meira að segja öruggara en að ferðast á milli hæða með rúllustiga.