*

Sport & peningar 4. febrúar 2017

Föðurlandsvinir mæta Fálkunum

Atlanta Falcons liðið freistar þess að vinna Ofurskálina í fyrsta skiptið í sögunni næstkomandi sunnudag.

Næstkomandi sunnudag fer stærsti árlegi íþróttaviðburður veraldar fram þegar New England Patriots og Atlanta Falcons mætast í hinni svokölluðu Ofurskál, eða Super Bowl. Þetta er í 51. skiptið sem barist er um Ofurskálina og fer einvígið að þessu sinni fram í Houston, Texas.

Enginn bjóst við því fyrir tímabilið að Fálkarnir færu alla leið í Super Bowl. Liðið á ansi lítinn aðdáendahóp utan Georgíuríkis og hefur í gegnum tíðina þótt afar óspennandi. Aðeins einu sinni hefur Atlanta keppt í Super Bowl, árið 1999, þegar liðið steinlá gegn Denver Broncos.

Kvöldið fyrir þann leik var Eugene Robinson, ein helsta stjarna liðsins, handtekinn fyrir að reyna að kaupa sér vændiskonu og Fálkarnir töpuðu 34-19. Minningarnar frá Ofurskálinni eru því ekkert frábærar.

Lið Falcons hefur hins vegar komið öllum á óvart á tímabilinu. Eftir sveiflukennda byrjun náði liðið sér heldur betur á strik, með leikstjórnandann Matt Ryan og útherjann Julio Jones fremsta í fararbroddi, og endaði á að vera besta sóknarlið tímabilsins. Í útsláttarkeppninni fóru Fálkarnir létt með Seattle Seahawks og Green Bay Packers og nú bíður þeirra möguleikinn á að hampa sínum fyrsta Vince Lombardi bikar.

Davíð og Golíat Föðurlandsvinirnir frá New England eru öllu vanari því að keppa um Ofurskálina heldur en andstæðingar þeirra. Síðast unnu þeir titilinn með dramatískum sigri gegn Seattle Seahawks árið 2015 en þeir töpuðu í tvígang gegn New York Giants árin 2008 og 2012. Besti tími Patriots var á árunum 2002 til 2005 þegar þeir unnu þrjár Ofurskálar á fjórum árum, undir handleiðslu leikstjórnandans Tom Brady. Þessi magnaði leikmaður virðist eldast eins og gott rauðvín, hann er 39 ára gamall en tekst að vera meðal bestu leikstjórnenda deildarinnar ár eftir ár. Hann getur á sunnudaginn orðið fyrsti leikstjórnandinn í sögunni til að vinna Ofurskálina fimm sinnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: NFL  • Superbowl