*

Menning & listir 6. maí 2018

Fógetahúsið orðið safn

Elsta hús Reykjavíkurborgar var í gær vígt sem safn og sýningarhús. Til stendur að grafa þaðan göng yfir í Landnámssýninguna.

Eitt elsta hús Reykjavíkur, fógetahúsið við Aðalstræti 10, var í gær vígt sem safn og sýningarhús. Til stendur að grafa þaðan göng yfir í Landnámssýninguna tveimur húsum frá.

Þrjár sýningar eru í húsinu. Ein er um sögu hússins sjálfs og í bakhúsinu eru tvær sýningar; önnur um torfhús í Reykjavík, sem byggir á rannsóknum Hjörleifs Stefánssonar og hin er ljósmyndasýningin Reykjavík 1918, samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins og Borgarsögusafns Reykjavíkur í tilefni aldarafmælis fullveldisins.

Farið er að leggja drög að næstu sýningum, svo sem um sögu Kvosarinnar, nýuppgötvaðar fornminjar þar og sýningu sem tengist Landnámssýningunni. Opnuð verða undirgöng milli Aðalstrætis 10 og Landnámssýningarinnar, með það fyrir augum að halda sýningu um sögu Reykjavíkur, allt frá landnámi til samtímans.

Aðalstræti 10 er reist árið 1762 og er elsta hús á föstu landi Reykjavíkur, en aðeins Viðeyjarstofa er eldri. Húsið var upphaflega reist undir bókara Innréttinganna, félags Skúla Magnússonar landfógeta, og klæðageymslu. Síðar var þar íbúðir undirforstjóra Innréttinganna.

Margir aðrir merkir menn bjuggu í húsinu. Westy Petræus kaupmaður keypti húsið um aldamótin 1800. Árið 1807 eignaðist Geir Vídalín biskup frá Skálholti húsið og var það lengi kallað Biskupsstofa. Biskup og kona hans bjuggu í húsinu til 1849. Jens Sigurðsson, rektor lærða skólans, bjó síðan í húsinu milli 1855 og 1868, en bróðir hans Jón Sigurðsson forseti hafði aðsetur í húsinu þegar hann var í Reykjavík yfir sumartímann. Á eftir Jens bjuggu í húsinu landlæknir, kaupmenn og fleiri. Árið 1926 keeyptu Silli og Valdi húsið og ráku þar verslun í rúma hálfa öld, fram að því að veitingastaðurinn Fógetinn tók við.

Minjavernd tók við húsinu árið 2005 og var það þá í mjög slæmu ástandi. Endurbygging þess var í umsjá Minjaverndar og í maí árið 2007 var húsið opnað eftir endurbyggingu. Bætt var við nýbyggingu fyrir aftan húsið.

Reykjavíkurborg keypti húsið af Minjavernd á síðasta ári á rúmlega 260 milljónir króna. Heildarkostnaður við húsið og sýninguna er um 370 milljónir króna.

Stikkorð: sýning  • safn  • Fógetahúsið  • Aðalstræti 10