*

Menning & listir 28. október 2012

Fokkaðu þér, Magnús!

Vesturport frumsýndi leikritið Bastarða í Borgarleikhúsinu á laugardagskvöld. Þetta er kraftmikið verk um sundurtætta fjölskyldu.

Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvað geri fjölskyldu venjulega í samanburði við þá sem Vesturport segir frá í leikritinu Bastarðar eftir þá Gísla Örn Garðarsson og bandaríska handritshöfundinn Richard LaGravense. Þetta er sagan af Magnúsi, sextugum skíthæl sem hefur hugsað um rassgatið á sjálfum sér alla tíð, komið undir sig eignum með svikum og prettum. Undan honum koma fjögur börn sem hata hann og óttast. Hrottaskapur hans og miskunnarleysi veldur því að börnin eru ófær um að elska, sjálfsmynd þeirra er í molum, hræðslan einkennir líf þeirra og sál allra líkust pældum garði sem engu er plantað í og dagar uppi.

Í leikskránni er haft eftir LaGravense að innblásturinn hafi verið skáldverkin Karamazov-bræðurnir eftir Fjodor Dostojevskí og Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Dostojevsí hafi nýst til að endurspegla þrjár hliðar manneskjunnar í börnunum: skynfærin, tilfinningarnar og hugsunina gagnvart sjálfelsku foreldranna. Takmarkalaust sjálfstæði Bjarts í Sumarhúsum skóp hrottann Magnús. Þetta eru áhugaverð krydd í endurnotað efni.

Sögusviðið virðist vera eyja í ónefndu landi. Magnús fær syni sína tvo, Jóhann og Mikael til að koma í heimsókn á fölskum forsendum; hann segist veikur. Þótt þeir hati heimili æsku sinnar láta þeir eftir með þá von í brjósti að karlinn sé að gefa upp öndina. Með dauða hans vona þeir að hlekkir óttans hverfi. Dóttirin Marta og yngsti sonurinn Alex, sem Magnús sér sjálfan sig í, búa hjá honum. Vonbrigði elstu sonanna eru mikil þegar systkinin segja þeim að heimboðið er í takt við annað hjá gamla ófétinu: Hann ætlar að giftast - og gera upp við þá í leiðinni. Kvonfangið er fyrrverandi unnusta Mikaels sem sömuleiðis virðist hafa eytt nokkrum stundum með Jóhanni. Fleira stendur til sem óþarfi er að tíunda hér og tengist uppgjöri fjölskyldunnar í fleiri en einum skilningi. Ömurleikinn var hins vegar ekki einráður því inn á milli komu bráðskemmtileg innslög sem létti andrúmsloftið.

Funheit kona, sjúk fjölskylda

Leikhópurinn er þrusuflottur enda reynsluboltar á ferð sem kunna sína list upp á tíu. Á köflum velti ég því hreinlega fyrir mér hvort Stefán Hallur Stefánsson væri kjarnorkuknúinn, slíkur var krafturinn í brynvörn hans gegn ógeðslegum föður. Unnustan Margrét sem Nína Dögg Filippusdóttir leikur er funheit. Þá á aumingjaskapur Jóhanns afskaplega vel við Hilmi Snæ Guðnason. Tiltölulega nýútskrifaður Sigurður Þór Óskarsson sem leikur Alex, yngsta son Magnúsar kemur á óvart enda skilar hann karakter sínum vel. Þá getur maður ekki annað en vorkennt ömurlegu hlutskipti Mörtu, sem Þórunn Erna Clausen leikur, og Natalíu, konu Jóhanns, sem Elva Ósk Ólafsdóttir leikur.

Hlutverk Víkings Kristjánssonar sem Ríharður, maður Mörtu, virkaði undarlega í fyrstu. Þegar upp er staðið er Ríkharður annað og meira en ídíjót, skordýrasafnari og áhugaljósmyndari. Hann er eina vonarglætan í því rammgerða og glufulausa helvíti sem Magnús hefur reist í kringum sjálfan sig.

Stórleikarinn Jóhann Sigurðarsson leikur fúlmennið Magnús. Vaxtarlag Jóhanns hæfir hlutverkinu. Hins vegar virtist hann seinn í gang fyrstu skrefin og hökta á texta, sem truflaði mig. Það og aðrir smálegir hnökrar gætu skýrst af stuttum æfingatíma nýrra leikara sem komu inn í sýninguna eftir að það var forsýnt á Listahátíð í Reykjavík í sumar og Malmö og Kaupmannahöfn í haust.

Flott leikmynd

Leikmynd Barkar Jónssonar er kapítuli út af fyrir sig. Hún rammar leiksviðið inn með fjórum háum trjám og rimlagrind sem líkist laufskálaþaki. Leikararnir nota grindina til að flakka upp og niður að hætti Vesturports-liða. Áhorfendur sitja upp á sviðinu á þrjá kanta. Það setur vafalítið pressu á leikara. Það krefst þess m.a. að þeir snúi öðru hverju í átt til áhorfenda á öðrum vængjum og við það heyra aðrir síður í þeim. Miðja leiksviðsins er svo brunnur sem nýttur er á ótrúlegan hátt svo undrun sætir.

Við þetta bætist tónlist þeirra Lars Danielsson og Cæcilie Norby. Hún skipar stóran sess í Bastörðunum og bætir á þrúgandi andrúmsloftið.

Sorgleg staðreynd

Eftir sýninguna hitti ég fjölskylduráðgjafa fyrir tilviljun. Hann sagði fjölskyldu Magnúsar, ótta barnanna við föðurinn og hundónýt tengslin algengari en fólk almennt telur. Það tók í sálartetrið að fá staðfestingu á því að það sem lítur út fyrir að vera fáránleiki á sviði er þjáning annarra. Mig langaði mest til að ganga aftur inn, snúa Magnús niður og segja honum til syndanna.

Í hnotskurn

Bastarðar í Borgarleikhúsinu er rosalega kraftmikið og þrúgandi leikverk sem heldur áhorfendum föngum. Það fær áhorfendur til að velta fyrir sér ábyrgð og samskiptum foreldra og barna.

Höfundur: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. jon@vb.is 

Hér má sjá myndskeið af sýningunni: