*

Heilsa 11. mars 2013

Fólk í fornöld þjáðist líka af hjartasjúkdómum

Fólk þjáðist af kransæðastíflu og hjartasjúkdómum fyrir 4000 árum, löngu fyrir tíma skyndibitans og sígarettunnar.

Í einni stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á múmíum hefur komið í ljós að fólk í fornöld þjáðist af sömu hjartasjúkdómum og fólk þjáist af í dag. Þetta eru sömu sjúkdómar og hafa oft verið tengdir lífstíl fólks í dag. Þessar niðurstöður koma fram í dag á Health 24.

Rannsakendur hafa dregið þær ályktanir að hjartasjúkdómar gætu frekar tengst eðlilegri öldrun heldur en lífstíl eins og að reykja, borða óhollt og hreyfa sig ekki nægilega mikið.

Þegar tölvusneiðmyndir af 137 múmíum voru rannsakaðar kom í ljós æðakölkun, sem veldur hjartaáfalli og heilablóðfalli, hjá einum þriðja múmíanna. Þar með talið hjá fólki sem talið er hafa lifað heilbrigðu lífi.

Rétt yfir helmingur múmíanna, sem rannsakaðar voru, voru frá Egyptalandi á meðan hinar voru frá Perú, Suðvestur-Ameríku og Alaska: „Hjartasjúkdómar hafa fylgt manninum í meira en 4000 ár allsstaðar í veröldinni,“ segir Dr. Randall Thompson, hjartalæknir í Saint Luke´s Mid America Heart Institute.

Thompson segir það hafa komið rannsakendum mjög á óvart að sjá æðakölkun í fólki frá Alaska en það fólk er talið hafa lifað mjög heilsusamlegu lífi enda var það safnarar og veiðimenn.

Niðurstaða vísindamanna er meðal annars sú að fólk ætti ekki að vera eins sakbitið yfir lifnaði sínum fái það hjartasjúkdóm. Einnig að kannski sé búið að hamra um of á því að fólk geti algjörlega sloppið við hjartasjúkdóma breyti það um lífstíl.

Stikkorð: Egyptaland  • Múmíur  • Hjartasjúkdómar